Um sléttur Kenýa á ónýtri Súkku

Þetta er ekki flókið. Ef manni býðst að fara í tveggja daga safarí á mótorhjóli um óbyggðir Afríku þá grípur maður auðvitað tækifærið, jafnvel þótt mannskepnan tróni ekki lengur ótvírætt á toppi fæðukeðjunnar á þessum slóðum. Hér er pínulítil ferðasaga frá þessari ótrúlega stóru heimsálfu.

Dagur eitt

Vaknaði klukkan sex, spenntur því þennan dag stóð til að fara í safaríferð á mótorhjóli frá Mombasa. Morgunmaturinn var einfaldur og líklega ekki ósvipaður og hjá öpunum fyrir utan gluggann minn, banani og epli. Svo var það að klæða sig í stríðsbúninginn, festa á sig hlífar, spelkur, hjálm og annan öryggisbúnað sem minnka líkurnar á að maður þurfi að leita á náðir töfralæknis í strákofa, ef svo illa vill til að maður detti úr söðli. Á slaginu sjö mætti svo leiðsögumaðurinn minn, lítill og snaggaralegur Frakki sem hét Fred og hafði hann tvö mótorhjól meðferðis. Þegar ég fór að virða betur fyrir mér hjólin sem voru tæplega 10 ára gömul Suzuki DR350 (að mestu leyti) runnu óneitanlega á mig tvær grímur. Kannski er maður bara svo spilltur og fjandi góðu vanur. En hvernig sem maður reyndi að fegra það fyrir sér þá var ekki fram hjá því litið, hjólin litu hræðilega út og minntu helst á eitthvað sem skotið hafði verið niður í seinni heimsstyrjöldinni og hafði svo legið á hafsbotni síðastliðin 50 ár. Ekki fögur sjón. Og þetta átti að bera okkur hundruð kílómetra yfir óbyggðir Afríku næstu tvo dagana. En skítt með það, þetta var bara hluti af ævintýrinu.

Litli fransk-íslenski leiðangurinn hélt svo af stað í gegnum morgunumferðina á götum Mombasa en stuttu síðar var tekin kröpp beygja út á malarslóðana og við skildum stórborgina eftir í rykmekki. Áður en lengra er haldið er e.t.v. rétt að varpa smávegis ljósi á Kenýa og aðstæður þar á bæ sem eru ansi ólíkar þeim sem við þekkjum hér á klakanum. Segja má að ríkið Kenýa sé að mörgu leyti einn af ljósu punktunum í Afríku. Vissulega er fátækt veruleg í Kenýa en landið er fallegt, ríkt af framandi dýralífi, vaxandi ferðamannaiðnaði og góðum mat. En það sem stendur upp úr er fólkið sjálft, því þótt það hafi lítið milli handanna virðist það ekki síður lífsglatt en við á Vesturlöndum, sem höfum þó allt til alls og rúmlega það. Getur verið að eftir því sem menn eiga minni peninga verði þeir rólegri og vingjarnlegri?

Aksturseiginleikar dauðans

Vegirnir hlykkjuðust áfram og reglulega ókum við í gegnum kofaþyrpingar þar sem öldungarnir sátu spekingslegir undir tré meðan litlu krakkarnir hlupu með fagnaðarlátum á eftir þessum furðulegu litríku mótorhjólaköppum. Vegakerfið er mjög frumstætt og vegarslóðar liggja til allra átta og mynda einhvers konar köngurlóarvef um landið. Ég var farinn að afskrifa meiriháttar torfærur og djöfulgang, þar sem ég fann að hjólið mundi engan veginn ráða við mikil átök og að reyna eitthvað slíkt væri líklega bara til þess gert að bjóða hættunni heim. Mótorinn mátti þó eiga það að hann fór alltaf í gang í fyrstu tilraun og virtist, furðulegt nokk, neita að deyja enda Suzuki DR vel þekkt fyrir ótrúlega endingu. Hins vegar var fyrir löngu búið að berja alla aksturseiginleika úr hjólinu. Afturdemparinn var sprunginn og sló saman í hvert skipti sem hjólið ók á stein eða ofan í holu. Framendinn er sá svikulasti sem ég hef nokkru sinni kynnst og reyndi að kippa undan mér hjólinu í hvert skipti sem beygt var, sérstaklega var hjólið andstyggilegt í sandinum. Bremsurnar virkuðu meira sem hægjur og eftir að hafa farið einu sinni út af vegarslóðanum í krappri beygju og ekið inn í trjáþykkni með látum var ljóst að þetta snérist ekki lengur um kappakstur. Þetta var farið að snúast um að upplifa Afríku, að hjólið héldist saman og að lifa af hitann sem óx eftir því sem nær dró hádegi uns hann varð óbærilegur og sljóvgaði hugsunina (sem var nú kannski ekki skýr fyrir). En einmitt þá, á versta tíma þegar hitinn var sem mestur, fóru hlutirnir að klikka og dekkin að springa.

Hiti, sviti og sprungin dekk

Þegar klukkan sló tólf á hádegi höfðum við lagt að baki um 70 kílómetra og fyrir framan okkur biðu slétturnar eins langt og augað eygði, svona dæmigerðar eins og þegar maður sér dýralífsmynd um ljón í sjónvarpinu. Á þessum slóðum er náttúran sérlega óblíð og af þeim sökum er lítið um mannaferðir og bústaði. Líklega hefur Fred lesið hugsanir mínar þegar hann sá mig skima í kringum mig en hann tók það sérstaklega fram að lítið væri um ljón og aðra stóra ketti á þessum slóðum og þrátt fyrir að tilhugsunin um að sjá þessi dýr í sínu rétta umhverfi væri spennandi, var mér nokkuð létt enda ekki erfitt að sjá fyrir sér nafn manns á matseðli svona dýra. Eftir að hafa lagt að baki aðra 50 kílómetra inn á sléttunum kláraði ég drykkjarvatnið mitt, því þrátt fyrir vindkælinguna og ég væri sérlega léttklæddur var hitinn næstum því óbærilegur enda kom síðar á daginn að hann náði rúmlega 40 gráðum þegar mest (verst) lét. Sem betur fer bar Fred nokkra aukalítra af vatni á bakinu sem er jú einn lúxusinn við það að kaupa sér fylgdarmann í svona ferð. Inni á miðri sléttu sprakk svo fyrsta dekkið. Það var framdekkið á hjólinu mínu og eftir að hafa rifið dekkið undan kom í ljós að þyrnir hafði stungist í gegnum dekkið og á bólakaf í slönguna. Sjálfsagt höfum við ekki verið miklu meira en 30 mínútur að skipta um slönguna og setja dekkið aftur undir en þessar 30 mínútur voru bölvanlegar því skugga undan sólinni var erfitt að finna á þessum slóðum og drakk sólin vökva og orku úr líkömum okkar með hverri mínútunni sem leið og því mikilvægt að annaðhvort leggjast niður í skjól og bíða af sér mesta hitann eða koma sér sem fyrst af stað. Það var því mikill léttir þegar dekkið var komið undir og við ferðbúnir á ný. Mikið afskaplega voru þessar 3-5 gráður góðar sem við fengum við vindkælinguna og maður hresstist strax allur. En dásemdin entist ekki lengi því tveimur mínútum síðar, og ég ýki það ekki, stöðvaði Fred hjólið sitt. Enn eitt sprungið dekkið. Og aftur hófst baráttan við hitann á skuggalausri sléttunni.

Ekið í fótspor fílanna

Er dagurinn leið höfðum við lagt nærri 200 kílómetra að baki. Slétturnar höfðu reynst erfiðar og ekki gott að segja nákvæmlega hversu mikla mold og ryk við átum hvor undan hjólum annars yfir daginn. En það dró a.m.k. ekki úr þorstanum og þar sem farið var að lækka verulega í vatnsbirgðum okkar var gott að koma út af sléttunni og inn á grænna svæði, því þar var líklegra að vatn væri að finna. Þegar við ókum eftir hlykkjóttu einstigi fór ég að taka eftir sérkennilegum kúlum á stærð við handbolta sem lágu á víð og dreif. Við nánari athugun litu kúlurnar út fyrir að vera hálfmeltir grasboltar og ég lék mér í stórsvigi á milli þeirra. Stuttu síðar kom á daginn að þessir krúttlegu grasboltar voru fílaskítur og óneitanlega jókst spennan við það. Það voru þá fílar einhvers staðar nærri. Fred benti mér þó á að skíturinn væri líklega 3-4 daga gamall og því ekki víst að fílar væru alveg á næstu grösum. Fílar ferðast í hjörðum og fara milli vatnsbóla. Kvendýrin stjórna ferðinni (eins og hjá okkur mönnunum) og karldýrin og ungviðið fylgja á eftir. Við ókum áfram eftir einstiginu og stuttu síðar fór skíturinn að breytast. Kúlurnar urðu stærri og rakari. Það var ekki um að villast, þarna hafði fílahjörð nýlega farið um og undir okkur voru nú furðuleg hringlaga fótspor af stærri gerðinni. Fred nam staðar og gaf mér nokkur góð ráð. „Engan hraðakstur, haltu þig fyrir aftan mig og ef við rekumst skyndilega á fíl alls ekki drepa á hjólinu því ef flykkið verður hrætt og snýst til varnar er eins gott að geta komið sér snarlega undan.“

Mér fannst svo sem algjör óþarfi að bæta þessari spennu ofan á allt saman, ferðin var þegar orðin mjög sérstök. En ég gerði eins og mér var sagt og við ókum í rólegheitunum áfram. Ég hlustaði á ganginn í hjólinu, það virtist ganga eðlilega, eins gott ef við þyrftum að láta okkur hverfa í snatri. Víða mátti sjá hvar fílarnir höfðu brotið niður stórar breiður af myndarlegum trjám, hreinlega brotið gilda trjáboli í sundur eins og tannstöngla. Ég hlustaði aftur á vélina í Súkkunni, jú hún gekk nokkuð örugglega. Fred nam skyndilega staðar og gaf mér merki og ég vissi strax að við höfðum dottið í lukkupottinn. Ég renndi mér upp að Fred þar sem hann hafði numið staðar og viti menn, fílahjörð var að baða sig í vatnsbóli, varla meira en 100 metra frá okkur. Þó Fred hefði margsinnis séð fíla stóð hann ekkert minna heillaður en ég og virti fyrir sér fílamömmuna reka ungana sína upp úr vatninu og halda af stað inn í rjóðrið. Svo einstakt var augnablikið að maður bara hreinlega sat sem dáleiddur á hjólinu og steingleymdi að taka upp myndavélina.

Tólf tímum eftir að við lögðum af stað frá Mombasa hrundi ég niður í rúm í litlum bæ sem kallast Voi. Þetta hafði verið langur dagur og ég var svo uppgefinn að mig langaði mest að sofna bara þá og þegar liggjandi í drullugum og illa lyktandi gallanum upp í rúmi.

Dagur tvö

Einstakt land, ótrúleg upplifun

Afríka er stórkostlegt land. Auðvitað fékk ég þarna bara nasasjón af heimsálfunni, en upplifunin var stór. Þau voru ófá dýrin sem við sáum; villigeltir, ýmsar tegundir af antilópum sem ég kann ekki að nefna, apar, ótrúlegustu fuglar, hrægammar, fílar og á síðustu metrunum fundum við svo spor eftir konung dýranna, sjálft ljónið. Það var alveg hreint mögnuð upplifun að hugsa til þess að slóðir okkar hefðu skorist og að líklega væri hann ekki langt undan. Kannski að horfa á okkur úr fjarska? Mótorhjól er e.t.v. ekki besta leiðin til að sjá dýralífið, því þegar upp er staðið eru flest dýrin, að ljónunum meðtöldum, hrædd við okkur mennina, enda hafa samskipti þeirra við okkur verið þeim afar dýrkeypt. Það þarf því að nálgast dýrin með sérstakri varúð, helst að bíða eftir að þau láti sjá sig að fyrra bragði. En fyrir þá sem vilja komast í fulla snertingu við Afríku og upplifa hana með öllu því sem henni fylgir þá er vart hægt að hugsa sér skemmtilegri farkost en mótorhjól. Það að hjólið var alger drusla gerði ævintýrið bara enn meira spennandi og pirraði mig ekki meira en svo að næst verður skipulögð tíu daga ferð um Kenýa og Eþíópíu.

ÞK

Skildu eftir svar