Vefmyndavél

Saumavél eða draumavél?

Þegar Husqvarna ber á góma dettur sennilega flestum saumavélar í hug.
Staðreyndin er þó sú að það er ýmislegt fleira framleitt undir merkjum
Husqvarna, þ. á m. mótorhjól.

Ítalskt Husqvarna TE510 – saumavél eða draumavél?

Husqvarna TE510 er handsmíðað og kostar nálægt 3 milljónum.

Þegar Husqvarna ber á góma dettur sennilega flestum saumavélar í hug.
Staðreyndin er þó sú að það er ýmislegt fleira framleitt undir merkjum
Husqvarna, þ. á m. mótorhjól. Samhliða 100 ára afmæli flugsins í fyrra,
fagnaði Husqvarna þeim merkilega áfanga að hafa framleitt mótorhjól í
heila öld eða frá árinu 1903. Eftir afar blómleg tímabil og mörg
hundruð heimsmeistaratitla fór að halla verulega undan fæti hjá
Husqvarna-mönnum í kringum 1990. Í fyrra blésu svo ítölsku
Husqvarna-mennirnir í herlúðra og mættu tvíefldir til leiks,
fjárhagslega sterkir og með nýja línu af hjólum.

Einn af merkilegri drullumöllurum nútímans er Husqvarna TE510 sem
smíðað var í sérstakri afmælisútgáfu til að fagna tímamótunum. Helsti
galli þessa hjóls er að það er ekki hægt að nota það. Ástæðan er
einföld; það er of flott til að fara með það í drulluna! Hér eru nokkur
dæmi; einungis eru framleidd 100 slík hjól, þau eru handsmíðuð, flestar
skrúfur eru úr títani, þar sem venjulega er plast, (s.s. númeraspjöld),
eru hlífar úr trefjablöndu (carbon fiber), gjarðir með heilsteypt breið
nöf í bronslit, fjöðrun sú sama og keppnislið Husqvarna notar,
handsmíðaður áltankur, standpetalar úr títanium, mótorhlífar úr
trefjaefni, áletruð silfurplata á bensíntanknum með raðnúmeri hjólsins.
Meira að segja bensínlokið er gegnheill álklumpur sem hefur verið
skorinn út í Husqvarna merkið. Og listinn er aldeilis ekki tæmdur. Það
liggur því í augum uppi að svona gripur (sem kostar líklega nærri 3
milljónum króna) er ekki á leiðinni út í næsta drullupoll. En hvað með
að henda Kjarval af stofuveggnum og stilla hjólinu upp í staðinn? Ekki
spurning, þannig nýtur það sín. Hjólið er jú listaverk í sjálfu sér.

ÞK

Comments are closed.