Vefmyndavél

Fimm stjörnur en einn stór galli

KTM 525 EXC – fimm stjörnur en einn stór galli

ÞAÐ má í raun klára þessa umfjöllun með
tveimur orðum sem segja allt sem segja þarf og eru þau: Vá maður! En
fyrir hin ykkar sem eruð enn að lesa og viljið vita meira þá hljómar
afgangurinn eftirfarandi. Ég man vel eftir KTM fyrir áratug eða svo.


Hin hefðbundna EXC-útgáfa kostar 969.000 kr. en Six Days-útgáfan kostar 1.169.000 kr.
ÞAÐ má í raun klára þessa umfjöllun með tveimur
orðum sem segja allt sem segja þarf og eru þau: Vá maður! En fyrir hin
ykkar sem eruð enn að lesa og viljið vita meira þá hljómar afgangurinn
eftirfarandi.Ég man vel eftir KTM fyrir áratug eða svo. Hjólin voru
ekki upp á marga fiska, voru bilanagjörn og verksmiðjan rambaði á barmi
gjaldþrots. En þvílíkur viðsnúningur sem hefur átt sér stað í
austurrísku verksmiðjunum á síðustu árum. Ekkert minna en kraftaverk.
KTM hefur tekið torfærubransann með stórsókn, hirt fjölda titla og
slegið ótal sölumet. Ein ástæða velgengninnar er KTM 525 EXC. Við
prófuðum svokallaða Six Days útgáfu af hjólinu sem er keppnisútgáfa en
að grunninum sama hjól og hefðbundið EXC hjól. Forveri þessa hjóls, KTM
520, kom hinsvegar fram um aldamótin síðustu og sló strax í gegn enda
hafði verið lítið um stóra hvalreka á strendur endurómanna um langt
skeið. 525 hjólið hefur í raun sama mótorinn og gamla 520 hjólið en að
öðru leyti er hjólið gerbreytt og hefur allt aðra og betri
aksturseiginleika en forverinn sem var dálítið þunglamalegur, s.s. í
hægu tæknilegu klifri upp brekkur og í gegnum þröngar beygjur. 525
hjólið hefur vissulega ennþá nógu mikið afl til að þeyta manni um
hávegaslóða á óskynsamlegum og andfélagslegum hraða en með breytingum á
grind og fjöðrunarbúnaði hefur hjólið fengið mun léttari og
skemmtilegri aksturseiginleika sem gera það mjög fjölhæft fyrir vikið.
Gangurinn í mótornum er mildur, þægilegt í grjótbrölti en auðvitað er
hjólið meira á heimavelli eftir því sem hraðinn er meiri og ýta
gírarnir 6 enn frekar undir slíkan akstur.


525 rsm-vélin er með þeim stærri á markaðnum.

Sílíkon eða náttúrulegt?

Hjólið
er þægilegt ásetu, virkilega skemmtilega hannað útlitslega séð og allt
virkar þrælvel þegar kemur að stjórntækjum, kúplingu, frambremsu og
bensíngjöf en persónulega kýs ég vírakúplingu fram yfir ofurlétta
glussakúplingu, svo lengi sem sú fyrrnefnda er vel smurð og þokkalega
létt. Mér finnst vírinn bara gefa betri tilfinningu og náttúrulegri.
Þetta er smekksatriði. Ég var nú ekkert sérlega hrifinn af
afturbremsunni og ég átti það til að traðka hana í botn án þess að fá
alla þá svörun sem ég óskaði eftir. Drullan og bleytan hjálpuðu e.t.v.
ekki til hvað það varðar. Hjólið er með rafstarti, að sjálfsögðu. Þú
skellir bara innsoginu á, snýrð tvisvar eða þrisvar upp á
bensíngjöfina, ýtir á takkann og dýrið vaknar til lífsins. Þrátt fyrir
stóra vél er KTM hjólið blessunarlega lágvært og mætir ströngum
útblásturs- og hljóðmengunarkröfum sem aukast ár frá ári. Einnig er
gripurinn með fínum ljósum sem ekki bara virka vel heldur eru fallega
úr garði gerð. Hjólið kemur með hraðamæli sem geymir ýmsar upplýsingar
en mætti þó hafa stærri skjá (eða ökumann með betri sjón). Þegar allt
þetta er lagt saman er útkoman þrælöflugt keppnis- og leikhjól sem
hefur allan nauðsynlegan búnað til að fá götuskráningu (hvít númer).
Hljómar vel ekki satt?

300.000 króna demparar og bullandi aksturseiginleikar

Six
Days útgáfan af KTM 525 EXC kemur með sérstökum White Power
keppnisdempurum sem virkuðu mjög vel, sérstaklega afturendinn (PDS) sem
étur upp hindranir en nær jafnframt að halda góðu jarðsambandi og þ.a.l. miklu gripi. Framendinn virkaði líka ágætlega en mér fannst hjólið lítið eitt laust að framan og fann einnig lítillega fyrir óstöðugleika á mikilli ferð sem mætti líklega komast fyrir meðstýrisdempara. Fyrir ykkur sem eruð að velta fyrir ykkur hvernig
fjöðrunin á venjulegum EXC hjólum virkar í samanburði við þetta þá er
eiginlega ekkert annað en gott eitt um það að segja. Þessi sérstaka
útgáfa af White Power fjöðrun er bara enn betri.

KTM 525 er
mótorhjól með stóru M-i. Það sem stendur upp úr hvað mótorinn varðar er
hversu mikið en notendavænt aflið er. Til samanburðar má nefna að litli
bróðirinn, KTM 450, hefur meiri snerpu og sprengikraft en aðalsmerki
525 hjólsins er tog. Endalaust tog. Yfir höfuð var ég mjög sáttur við
mótorinn sem mér fannst vera þægilegur og áreiðanlegur en mér fannst
reyndar stundum eins og mótorinn hikstaði lítið eitt þegar ég gaf
snöggt inn í háum gír og á fremur lágum snúningi. Ekkert alvarlegt en
spurning hvort mætti hreinsa þetta atriði út af listanum með stillingum
á blöndungi. Uppgefin þyngd hjólsins frá KTM mönnum eru 112 kg án
eldsneytis sem er ekki ósvipað og hjól í 450cc flokknum sem verður að
teljast gott. Kílóin eru vissulega þarna og líklegt að mjög lágvaxnir
og/eða léttir ökumenn eigi í erfiðleikum með hjólið í mjög þröngum
aðstæðum þar sem þeir geta síður notað eigin líkamsþyngd til að vinna
með hjólinu. En þetta eru undantekningartilfelli og hjá flestum er
þetta ekki vandamál. Reyndar er það svo að í heildina hefur þetta hjól
einhverja þá allra bestu og notendavænstu aksturseiginleika sem völ er
á.


Magnús Jóhannsson (í appelsínugulu) er flugvirki og
KTM-eigandi og spretti úr spori með okkur. Hann þakkar fremur lágri
bilanatíðni hjólsins það að hann getur eytt meiri tíma í að gera við
flugvélar en mótorhjólið.

Fimm stjörnur en einn stór galli

90%
af þeim enduróhjólum sem eru á markaðnum eru sambærileg hvað varðar
verð og gæði. Þau eru hinsvegar eins ólík eins og þau eru mörg hvað
aksturseiginleika varðar og það sem menn kalla „besta hjólið“ veltur
oftar en ekki á persónulegum smekk og þörfum hvers og eins. KTM 525 er
ekki fullkomið fremur en önnur hjól. En það sem skiptir máli er að
gallarnir eru allir minniháttar. KTM 525 er í heildina frábært hjól og
líklega eitt allra besta enduróhjól sem ég hef ekið og það verður gaman
að sjá hvernig litli bróðirinn, KTM 450 stendur sig í samanburði við
hjólin frá hinum framleiðendunum á nýju ári. Þetta er stórt og
kraftmikið hjól en hefur samt bullandi góða aksturseiginleika. Fimm
stjörnur takk fyrir. Hjólinu fylgdi þó einn ókostur. Frekar stór. Hann
var sá að ég þurfti að skila gripnum aftur til KTM umboðsins að loknum
reynsluakstrinum en það var mér mjög á móti skapi. Ekki gott. Hvað varð
um réttlætið í heiminum?

ÞK

Leave a Reply