Góðar jólafréttir – endurosvæði vonandi á réttri leið

Undanfarna mánuði hefur stjórn VÍK, meðlimir úr enduro-, motocross og umhverfisnefnd og fleiri lagst á eitt við að leita félaginu varanlegra aksturssvæða í nágrenni Reykjavíkur. Umferð torfæruhjóla um Hengilssvæðið og Reykjanes hefur aukist gríðarlega undanfarin ár og það er orðið löngu tímabært að taka á þeim málum og beina umferðinni annað. Þar er frumkvæði okkar sjálfra lykilatriði frekar en að bíða eftir aðgerðum opinberra aðila með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Á undanförnum mánuðum hafa ýmsar hugmyndir verið viðraðar og rætt hefur verið við marga aðila um þessi mál. Við höfum horft sérstaklega hlýtt til Sveitarfélagsins Ölfus sem ræður yfir hvað mestu ónýttu landssvæði í nágrenni Reykjavíkur ásamt því að ræða við Umhverfisstofnun og Landgræðslu Ríkisins til að skýra okkar sjónarmið og þarfir. Af þessum viðræðum er ljóst að við eigum góða bandamenn víða sem vilja vinna með hjólamönnum til að draga úr landskemmdum af völdum mótorhjóla. Um leið er fullur vilji til að tryggja okkur aðgang að svæðum þar sem við getum stundað okkar íþrótt í sátt við annað útivistarfólk og hagsmunaaðila.

Í gær, 20. desember, áttum við undirritaðir góðan fund með fulltrúum sveitarfélagsins Ölfus ásamt fulltrúa Landgræðslu Ríkisins þar sem þessi mál voru rædd opinskátt og málefnalega. Í ljós kom að hjá þessum aðilum er góður skilningur á aðstæðum okkar og vilja til að draga úr skemmdum af völdum torfæruhjóla t.d. í kringum Hengilinn og víðar. Í umræðunni voru nokkur svæði sem geta komið til greina frá Litlu kaffistofunni til Þorlákshafnar. Niðurstaða fundarins var sú að málið yrði rætt af fyllstu alvöru innan sveitarfélagsins og afstaða verði tekin til tillagna okkar um miðjan janúar. Það kom fram í máli fulltrúa Ölfus að mikill vilji væri innan sveitarstjórnarinnar að bæta úr aðstöðuleysi hjólamanna, enda voru menn sammála um að ástæður landskemmda væri að hluta aðstöðuleysi okkar hjólamanna að kenna. Með aukinni þjónustu við hjólafólk yrði hægt að beina umferð annað og minnka álag á viðkvæmum svæðum. Við bindum miklar vonir við þessar málaleitanir og treystum því að niðurstaða sveitarfélagsmanna verði jákvæð þannig að við getum fyrr en seinna boðið félagsmönnum aðgang að sérstökum hjólasvæðum.

Í tengslum við þetta viljum við þó ítreka sérstaklega við alla félagsmenn að virða reglur um utanvegaakstur í grennd við Þorlákshöfn. Landeigendur á Hrauni sem ráða yfir sandnáminu við sjávarkambinn hafa orðið fyrir ágangi og gróðurskemmdum af völdum mótorhjólamanna. Skilaboðin eru því einföld – við hjólum ALLS EKKI í grennd við sandnámið eða annars staðar í fjörunni við Þorlákshöfn. Það kemur einungis til með að skemma stórkostlega fyrir þessum viðræðum og jafnvel setja þær í algjört strand.

Nú er tíminn til að sýna þolinmæði og standa saman og sýna að okkur sé treystandi sem hóp til að taka við afmörkuðum svæðum, setja okkur umgengnisreglur og fara eftir þeim. Lítum á þetta sem tilraun – ef leyfi fyrir umræddum svæðum fást erum við þeir einu sem getum klúðrað þeim með því að spóla svæðin og allt næsta nágrenni stjórnlaust upp. Ef við stöndumst hins vegar tilraunina gæti það hugsanlega opnað fyrir enn önnur svæði á öðrum stöðum sem myndi gjörbreyta allri aðstöðu okkar til framtíðar!

(H)jólakveðja

Hrafnkell Sigtryggsson, formaður VÍK
Gunnar Bjarnason, umhverfisnefnd
Steingrímur Leifsson

Skildu eftir svar