Gamalt hjól og nýtt

Þrátt fyrir aldurinn veitir gamla Honda MR hjólið litlum og stórum börnum mikla gleði.

Hvaða þróun hefur átt sér stað í smíði mótorhjóla á síðustu þremur áratugum? Er þetta ekki allt sama tóbakið í raun? Mótorhjól er jú bara mótor, tvö hjól og stýri ekki satt?

Þegar rykið er dustað af sögunni og mismunandi tímaskeið borin saman er ýmislegt í heimi mótorhjólanna sem kemur í ljós. Sumt gat maður svosem sagt sér sjálfur en annað kom verulega á óvart

Tökum tvö hjól. Annað kemur úr bílskúr Hilmars Lútherssonar og er Honda MR 175 árgerð 1976 og í fullkomnu lagi. Varla maður tími að keyra það. Hitt er nýjasta afsprengi Honda, kemur beint úr kassanum, og ber heitið Honda CRF250X. Bæði hjólin eru endurohjól, bæði í léttvigtarflokki, bæði frá sama framleiðanda. Bæði hafa talist afburðagóð hjól hvort á sínum tíma, CRF-X í nútímanum en MR-ið á sjöunda áratugnum. Nokkuð gott par í litlu tilraunina okkar ekki satt? En hvað hefur breyst?

Mikill munur

Hjólin eru léttvigtarhjól í enduroflokki frá sama framleiðanda og teljast frumherjar á sínu sviði.

Það þarf svo sem ekki snilling til að sjá hversu ólíkar þessar tvær Hondur eru. MR-ið virðist samsett úr sjálfstæðum einingum sem falla misgróflega saman meðan mismunandi hlutar CRF-X (s.s. sæti, bensíntankur og vatnskassahlífar) falla hárnákvæmt saman í eina fullkomna heildarmynd. En það er ekki fyrr en þú sest á MR-ið að þú ferð að verða hissa fyrir alvöru. MR-ið er afar smágert í samanburði við hjól nútímans. Á þessum árum voru hjól með litla vélarstærð líka lítil. Sætishæðin er það lítil að maður er í hálfgerðum vandræðum með að koma fótunum fyrir og sætið sjálft svo mjúkt að þú sekkur djúpt ofan í það eins og hægindastól og situr þar fastur.

Næst er að setja gripina í gang. MR-ið er tvígengishjól og það þurfti alltaf smálagni við að taka út startsveifina á hjólinu fyrir gangsetningu. Ég áttaði mig ekki alveg á því hvort það skrifast á slit á þessu aldna hjóli, groddalega hönnun eða kannski bara klaufaskap í mér. En hvað um það, hjólið fer í gang í fyrsta eða öðru sparki, ekkert mál. CRF-X er fjórgengishjól en þrátt fyrir það er mótorinn álíka lítill og nettur og í tvígengishjólinu. Mér datt ekki í hug að gangsetja hjólið á startsveifinni þar sem hnappurinn fyrir rafstartið er mun fljótlegri og auðveldari.

Auðheyranlega er vélarhljóð þessara tveggja hjóla mismunandi þar sem annað er tvígengis en hitt fjórgengis. Það sem er stórmerkilegt er sú staðreynd að vinnslusviði þessara mótora hefur verið snúið á hvolf í gegnum árin. Það sem ég á við er að í gamla daga voru fjórgengismótorar þungir og hæggengir, skiluðu bara togi neðst á vinnslusviðinu og síðan ekki söguna meir á meðan tvígengismótorar voru léttari og höfðu aðeins víðara vinnslusvið. En þessi fullyrðing á ekki við lengur og kom það skemmtilega í ljós í samanburði þessara tveggja hjóla.

Gangverk MR 175 er mjög frumstætt, það nýtur ekki góðs af nútíma útblástursventlum og pípulagnir þess (blöndungur, púströr o.þ.h.) eru mjög einfaldar. Vinnslusvið hjólsins er því mjög takmarkað og gróft á meðan CRF-X fjórgengishjólið hefur gríðarlega vinnslu á öllum snúningssviðum og skilar afli upp allan skalann allt þar til það slær út á öskrandi vinnslu nærri 12.000 snúningum. Rosalegt kikk. Furðulegt hvernig hlutirnir breytast með tímanum.

Stjórntækin ólík
Þá að stjórntækjum hjólanna en þar er gamla greyið æði langt á eftir nýja X-inu. Kúplingin er mjög stíf og gefur litla tilfinningu fyrir því sem maður er að gera og sömuleiðis frambremsan. Sjálfsagt hefur þetta þótt gott einhvern tímann en í samanburði við nútímahjól er MR-ið ósköp stirt. En viti menn bensíngjöfin virkaði aldeilis stórvel á gamla gripnum sem var eins gott þar sem maður þurfti oft að snúa vel upp á hana til að komast úr sporunum. Hvað um fjöðrunina á MR 175? Hún mun sjálfsagt hræða marga sem ætla sér að fara geyst yfir. Fyrir utan að vera eftirbátur CRF-X hvað varðar virkni, möguleika á stillingum o.þ.h. er slaglengd fjörðrunarinnar á MR-175 ekki nema rúmir 12 sm sem er næstum þrefalt minna en menn hafa úr að spila í dag! Svo lengi sem þú heldur þig á mottunni og ofbýður ekki MR-inu er allt í himnalagi og hjólið reynist vel daginn út og inn.

Niðurstaða tilraunar

Honda CRF-X er tímamótahjól hvað varðar hönnun og aksturseiginleika.

Hvernig mótorhjólahetjur fyrri tíma (eins og t.d. leikarinn góðkunni Steve McQueen) fóru að því að keyra þessa forngripi eins hratt og raun ber vitni er mér hulin ráðgáta. Þegar maður ber saman aksturseiginleika fyrr og nú er ljóst að eitthvað meira en lítið hefur gengið á í þróunarvinnu þeirra í Japan síðastliðna áratugi. Gæti maður farið aftur í tímann, til 1976, og tekið með sér nýja X-ið hefðu menn tvímælalaust talið að hjólið tilheyrði annarri plánetu.

Hjólin eiga fátt sameiginlegt nema Hondavænginn góða á bensíntanknum. En hvort hjólið er skemmtilegra? Hér er það sem kom á óvart. Þótt MR-ið sé hægfara, gamaldags og hafi sáralitla aksturseiginleika er hrein snilld að aka gripnum. Hefur þú prófað að aka í rólegheitunum eftir sveitavegi, yfir einstaka drullupoll og fylgjast með fuglalífinu í kringum þig? Ekki ég heldur. Ekki fyrr en ég prófaði MR-175. Það kemst ekki hratt en sameinar á undraverðan hátt náttúruskoðun og mótorhjóladellu. Það er nokkuð sem tækniundrið CRF-X getur með engu móti gert því þegar þú keyrir það ertu kominn á fljúgandi siglingu áður en þú veist af með augun límd við veginn sem þýtur framhjá þér. Fyrir ykkur sem þjáist af alvarlegri mótorhjóladellu er nauðsynlegt að prófa báðar tegundir mótorhjólamennskunnar, spennuna og afslöppunina. Nú er bara spurning hvar maður getur keypt sér svona gamlan jálk?

ÞK

Skildu eftir svar