Vefmyndavél

Er þetta það sem við viljum!

Hvet allt hjólafólk til að lesa grein Ara Trausta Guðmundssonar um landnýðingsskap torfæruvélhjólaökumanna. Getur það verið að marg af því sem þar kemur fram sé rétt? Hvernig eigum við að bregðast við svona löguðu?…. Jakob.

Mánudaginn 30. ágúst, 2004 – Aðsendar greinar

Landskemmdir eru ekkert grín

Ari Trausti Guðmundsson skrifar um ferða- og umhverfismál: „Hitt veit ég að býsna margir böðlast á torfæruhjólum um mela og klappir…“

Ari Trausti Guðmundsson

ÞAÐ tók okkur áratugi að ná jeppaakstri utan vegar (á vorin, sumrin og haustin) langleiðina niður undir þolanleg mörk. Það gerðist í takt við breytt viðhorf til gróðurs, landslags og ferðamála. Orðið ökuníðingur festist aldrei við þá sem óku, eða aka, utan vegar að óþörfu. Það á við ökumenn sem valda hættu og tjóni á götum og vegum. En kannski er að koma fram hópur fólks sem gæti átt á hættu að þetta orð festist við hann.

Hér á ég við þá sem eiga torfæruvélhjól og fjórhjól og kunna ekki að fara með slík tæki á ábyrgan hátt. Og ég veit ekki hvort þetta er minnihluti eða meirihluti þeirra sem hafa umráð yfir svona ökutækjum. Hitt veit ég að býsna margir böðlast á torfæruhjólum um mela og klappir á Sveifluhálsi, um gróðurlendur í dalnum vestan við hálsinn (Móhálsadal) og reyna að komast alla leið upp á Helgafell við Hafnarfjörð á græjunum.

Þar sér á brekkum og meira segja á klöppum vegna þess að sumir skrönglast á fjallið á veturna með nagladekk undir hjólunum. Nú um daginn tók ég eftir því að mosinn utan í Eldborg við Drottningu (við veginn í Bláfjöll) er skemmdur eftir vélhjól en þarna er friðað náttúruvætti og nóg komið þar af nauðsynlegum slóðum (gönguleiðum) en þeir eru áberandi brúnir og breiðir á gígnum. Búið er að aka eftir nokkrum hlutum af gönguleiðinni Reykjavegi (milli Nesjavalla og Reykjaness) og valda þar óþarfa raski og til eru þeir sem geysast í óleyfi eftir stígum Heiðmerkur á hjólum sínum, spæna þá upp og valda slysahættu. Í síðustu viku var ég aftur á ferð með fólk við Bláfjöll og hitti þá þrjá Frakka á torfæruhjólum sem varla sá í fyrir aur. Þetta voru glaðir og reifir ævintýramenn, nýkomnir af hverasvæðum í Hengli og voru á leið upp í Bláfjöll til að aka yfir Heiðina há og niður að Þorlákshöfn (á leið til Vestmannaeyja). Lítið vissu þeir um friðlönd eða akstursreglur og voru undrandi þegar ég sagði þeim frá Reykjanesfólkvangi, göngulandinu við Hengil og reglum um akstur utan vega. Við stikuðum út ökuleið handa þeim um Bláfjallaveg, Krísuvík, Selvogsveg og til Þorlákshafnar á korti en eitthvað dró þá úr gleðinni.

En þeir lofuðu kurteislega að snúa við.

Alveg er ljóst að torfærutækjaeign landsmanna eykst, meðfærilegum tækjum fjölgar, ungum ökumönnum fjölgar og útlendingar eru löngu komnir á bragðið með „akstursævintýralandið Ísland“.

Ef Umhverfisstofnun á ekki frumkvæði að úttekt og úrbótum, verður einhver annar að taka af skarið. Kannski samgönguráðuneytið? Kannski umhverfisráðuneytið? Margs konar ferða- og útivistarhættir eiga að geta farið saman þannig að sómi sé að og land skemmist ekki til frambúðar.

Ari Trausti Guðmundsson skrifar um ferða- og umhverfismál

Höfundur er áhugamaður um umhverfi og ferðamál og starfar m.a. sem ráðgjafi hjá Línuhönnun.

_____

© Morgunblaðið, 2004

Leave a Reply