450cc testið úr Mogganum 16júní 2004

Þá birtum við loksinns 450cc testið sem var í Mogganum 16 júní fyrir þá sem misstu af því. Auk þess er þarna smá aukaefni og myndir.
Tekið úr Morgunblaðinu Miðvikudaginn 16. júní, 2004 – Bílablað+ aukaefni

Fullvaxin enduro-hjól

Hjólin sem um ræðir eru GasGas 450 fse, Yamaha WR 450, Husaberg 450 Fe,
TM 450 og VOR 450. Til stóð að fá KTM 450 með í þennan
reynsluakstur, enda þykja þau standa mjög framarlega í þessum flokki
en því miður var ekki unnt að verða við þeirri ósk okkar. Til að
fá sem breiðasta innsýn inn í reynsluaksturinn fékk ég til liðs við
mig þá Heimi Barðason, Jón Bjarnarson og Reyni Jónsson sem allir eru
gamlir refir í sportinu

Husaberginn hefur
gengið í endurnýjun lífdaga með miklum endurbótum en
átti þó erfitt í sleipu stórgrýtinu.
Spánska flugan hafði marga
stóra kosti og fáa galla. Sem keppnishjól mætti GasGas e.t.v.
vera örlítið sprækara.

GasGas

GasGas er sett saman í lítilli verksmiðju á Spáni af mönnum meitluðum
af djúpri hefð og ástríðu fyrir svokölluðum klifur (trials) mótorhjólum.
Þegar enduro-hjól komu frá verksmiðjunni fundu margir eiginleika
klifurhjólsins í þessu nýja hjóli Spánverjanna. Útkoman er hjól
sem er ótrúlega lipurt og notendavænt en leynir þó á sér og
hreinlega flengist áfram þegar snúið er upp á rörið. GasGas-mótorinn
hefur mjög breitt vinnslusvið, það er afl alstaðar en samt skilar
hann því átakalaust frá sér, næstum því silkimjúkt. Þú gætir
ruglast og talið að hjólið sé kraftlaust en tilfellið er að það
mokvinnur, það bara gerir það án þess að vera með læti. Þetta má
að miklu skrifa á beinu innspýtinguna en þar stendur GasGas fetinu
framar en keppinautarnir sem nota allir „gamaldags“ blöndunga.
Eftir þessi kynni finnst manni vélarhljóð hinna hjólanna líka ansi
óhreint á meðan Gasserinn er silkimjúkur á öllum vinnslusviðum. Fjöðrunin
er einnig mjög góð og var hjólið líklega í hvað bestu samræmi hvað
varðar fram- og afturfjöðrun. Hjól sem í gegnum tíðina hafa haft
lipra aksturseiginleika hafa gert það á kostnað stöðugleika hjólsins
þegar ekið er á mikilli ferð og GasGas er ekki undanskilið þessu lögmáli.
Það skortir nokkuð á öryggistilfinninguna þegar hjólinu er ekið í
hæsta gír á miklum hraða, hjólið er ekki það rásfastasta á þessu
hraðasviði. En hjólið er ekki að svíkja mann svo illa að ekki megi
komast hjá þessum greinilega háhraðaskjálfta með aðgát. Við höfum
upplifað þetta sterkar á öðrum hjólum í gegnum tíðina. Sumum
okkar fannst hjólið helst til þungt og vanta lítillega upp á
toppkraft hjólsins, en skoðanir voru samt skiptar um þetta meðal
reynsluakstursmanna. Frágangurinn á hjólinu er ekki jafnlýtalaus og á
japönskum hjólum en engu að síður vel fullnægjandi.

Sumum kann að finnast umsögnin um GasGas vera eindregið jákvæð. Hún
er það líka. Tilfellið er að kostir hjólsins eru margfalt fleiri en
gallarnar. Stærsta vandamálið er líklega tengt því að útvega sér
hjólið því Spánverjarnir anna vart eftirspurn. GasGas 450 fse fæst
hjá JHM Sport og kostar 898.000 stgr. (www.jhmsport.com)

Husaberg FE450

Husaberg stendur á krossgötum. Þetta hjól, sem hannað er með kraft
og léttleika að leiðarljósi, hefur þótt

hafa fullháa bilanatíðni, eins og flestir vita. Það sem ekki allir
vita er að mikið vatn hefur runnið til sjávar sl. 1-2 ár og hjólin
verið endurbætt. Endurbætur sem eru líklegar til að auka endingu og
áreiðanleika sænsku hjólanna. Mótorinn í Husaberg er hugarfóstur
Thomas Gustavsson, fyrrverandi heimsmeistara í enduro, og hann er alveg
sterkur allt frá lágsnúningi upp í efsta hluta vinnslusviðsins þar
sem hann þeytir hjólinu rösklega, en þó ekki fruntalega, vel á annað
hundraðið. Mikið hefur verið lagt í að gera þetta hjól létt og
vegur það minnst af öllum þessum hjólum. Þetta samspil léttleika og
góðs mótors gerir það að verkum að Husaberg virkar sem mjög
hvetjandi hjól í akstri, þeim mun hraðar sem þú vilt fara þeim mun
betra. Ef aðeins Thomas og félagar lærðu að búa til netta bensíntanka,
en þessi klunnalegi bensíntankur var stærsta umkvörtunarefni hópsins
í reynsluakstrinum.

Þetta er tæplega hjólið fyrir unglinginn, til þess er það of sérstakt.
Þetta hjól mun e.t.v. falla best þroskuðum ökumönnum sem vilja
enduro-hjól með stóru E-i. Hjólið fæst í verslun Nitro
(www.nitro.is) og kostar 860.000 kr., en þess má til gamans geta að
fyrir 80.000 krónur má umbreyta þessu öfluga hjóli í super moto götuhjól.

Þrátt fyrir að vera dálitið
óheflað á WR 450 sér stóran aðdáendahóp um allan heim og
ekki að ástæðulausu.
TM er hjólið fyrir kappsfulla
ökuþóra. Þessi mynd var tekin í eitt af þeim fáu skiptum sem
hjólið stóð kyrrt.

Yamaha WR 450

Það lætur nærri að WR-hjólin séu mest seldu enduro-hjól í heimi
sem í sjálfu sér hljóta að teljast ágæt meðmæli. WR 450 er sterkt
hjól, afar öflugt og óhætt að gefa því bestu einkunn hvað varðar
áreiðanleika og endingu. Vinnsla hjólsins kom flestum þægilega á óvart,
það hefur svipaða seiglu og XR 600 neðst á vinnslusviðinu en togar
eins og stórt tvígengishjól upp á ærandi snúning og skilar aflinu frá
sér ansi rösklega, fullrösklega fyrir smekk sumra. Einn helsti
akkilesarhæll þessa hjóls er vafasamur hljóðkútur því hjólið er
annaðhvort mjög hljóðlátt eða mjög kraftmikið og lifandi, en ekki
bæði í einu sem fellur illa að vaxandi umhverfishyggju nú á tímum.
Kúplingin á Yamaha er einnig sú stífasta og fékk hjólið mínus í
kladdann fyrir að þreyta okkur alla óþarflega mikið í vinstri
hendinni. WR er ekki þyngsta hjólið í kílóum talið en þar sem þyngdarpunktur
hjólsins er fremur ofarlega fer hvert kíló að gera meira vart við
sig, sérstaklega í beygjum. Hjólið er fremur hátt og stórt og hentar
sérstaklega vel fyrir hávaxna ökumenn. Fjöðrunin vinnur miðlungsvel
úr þungum og hægum höggum, (s.s. í djúpum sandi á lítilli ferð),
en þegar hraðinn eykst er Jamminn kominn á heimavöll og étur upp þær
hindranir sem á vegi hans verða. Hjólið fæst hjá Arctic
Trucks/Yamaha og kostar 911.000 kr. (www.yamaha.is).

Ef líkja ætti Yamaha WR við hest teldist það seint góður
barnahestur. Til þess er það of stórgert og gróft. Aftur á móti er
hjólið stórskemmtileg blanda af vinnu- og veðhlaupahesti. Hægt er að
þeytast á því allt árið án þess að það slái feilpúst. Ef þér
skyldi svo detta í hug að keppa á hjólinu þarf ekkert til nema bensín
á tankinn og góða skapið.

TM450

TM á meira sameiginlegt með motocrosshjóli en hinu dæmigerða
enduro-hjóli. Þetta er fjórgengishjól með snerpu tvígengishjóls og
hentar því langbest sem keppnistæki. Hinn dæmigerði ökumaður sem sér
fyrir sér rólega sunnudagsrúnta ætti ekki að hugsa um TM. Til eru önnur
hjól sem skila sínu miklu betur við slíkar aðstæður. Mótorinn á
TM er hraðgengur og aflið kemur inn með miklum látum. En það á ekki
að koma á óvart, hjólið er jú eftir allt smíðað með keppni í
huga. Þeir okkar sem sóttust eftir „kikkinu“ fundu það svo
sannarlega á þessu hjóli. Það er líka gaman að horfa á TM-ið. Hjólið
er skemmtilega smíðað og hlaðið frábærum búnaði, s.s. Öhlins-fjöðrun,
fallegum bláum gjörðum og fleiru. Fyrri daginn ókum við í braut sem
á um margt skylt við motocrossbraut og hjólið bar af í þessum aðstæðum.
Mikið rosalega var gaman að sprengja sig út úr djúpum sandbeygjum á
þessum fola með spólstrókinn á eftir sér. Fjöðrun hjólsins fékk
einnig mikið lof allra enda ekki við öðru að búast frá Öhlins og hún
bar það einnig með sér að með lítilsháttar vinnu í stillingum
megi stilla fjöðrunina hárfínt fyrir hvaða aðstæður sem er. Lögun
hjólsins er einnig til þess gerð að auðvelda færslu líkamsþyngdar
fram og aftur á hjólinu eins og á motocrosshjólum enda hjólið grannt
og flatt ásetu. Sætið var dáldið hart fyrir mjúka bossa en varla hægt
að setja út á það þar sem hjólinu var ekki ætlað að vera þægilegt.
Titringur frá mótor upp í stýri var töluvert greinanlegur og hávaðinn
í hjólinu mikill og sver sig í ætt við lætin í WR 450. TM kostar
999.000 kr. og fæst hjá JHM sport (www.jhmsport.com) og er hægt að fá
Öhlins framdempara á hjólið fyrir 60.000 kr. aukalega.

TM er villikötturinn í hópnum. Það kemur út úr umboðinu tilbúið
í keppni. Hjólinu fylgir lítill púki sem situr á öxlinni á þér og
hvíslar að þér hraðar, hraðar, hraðar.

TM er hjólið fyrir kappsfulla ökuþóra. Þessi mynd var tekin í eitt af þeim fáu skiptum sem hjólið stóð kyrrt. Búið að stilla hjólunum upp á Reykjavíkurflugvelli. Þrátt fyrir hamagang stóðust öll hjólin þrautirnar án þess að bila sem telst meðmæli í sjálfu sér.

VOR

VOR 450 er án efa fallegasta hjólið í hópnum en um leið það hjól
sem framkallaði hvað ólíkust viðbrögð. Annaðhvort hatarðu það eða
elskar. Eiginlega ekkert þarna á milli. Það sem allir voru þó sammála
um er að þetta hjól er ólíkt öllu öðru sem er í boði á markaðnum
í dag. Mótorinn er eins og ódrepandi traktorsmótor, með alla
vinnsluna á einum stað, alveg neðst. Það er ekki hægt að kæfa mótorinn,
hann mallar bara og mallar og svo snýrðu upp á bensíngjöfina, ferð
í gegnum gírana og hraðinn eykst en samt er eins og hjólið sé alltaf
á sama lágsnúningnum. Þetta er það hjól sem finnur grip alstaðar
og þegar önnur hjól fara að spóla bítur VOR sig fast við jörðina.
Annað sérkenni þessa hjóls er framendinn. Það er eins og framhjólið
hafi gert samning við náttúruöflin um að toga sig niður með margföldu
þyngdarafli, hjólið steinliggur að framan eins og ekkert annað sem
þú hefur kynnst áður. Hjólinu hlaust einnig sá vafasami heiður að
vera þyngsta hjólið í hópnum í kílóum talið og þessir áðurnefndu
eiginleikar hjólsins (traktorsmótor og þungur framendi) gera það að
verkum að maður verður töluvert var við allan þennan massa sem maður
hefur í höndunum. Það sem vegur á móti þessari miklu þyngd er Öhlins-fjöðrunin,
og einnig það að þyngdarpunktur hjólsins er fremur neðarlega. Frágangur
hjólsins er í heildina góður og smíðin virkar vönduð. Startsveif
hjólsins er frábrugðin öllum öðrum hjólum því hún gengur fram en
ekki aftur þegar maður stígur á hana. VOR er á kynningartilboði þessa
dagana á 859.000 kr. og má fá allar upplýsingar um hjólið og umboðsaðila
þess á Íslandi á www.vor.it.

VOR gerði þennan reynsluakstur eftirminnilegan. Hjólið virkar,
a.m.k. fyrir suma og um það bera alþjóðlegir meistaratitlar vitni.

Kíló er ekki það sama og kíló:

Það getur ært óstöðugann að lesa sér til um þyngd hjóla. Bæði er misjafnt við hvað menn miða og einnig eiga framleiðendur til að “hagræða” mælingunum svo ekki sé tekið dýpra í árinni. Við mældum hjólin fyrir ykkur eins og þau gjarnan eru þegar maður kemur til með að nota þau, með olíu á vélinni og fulla bensíntanka og notuðum til verksins hávísindalegan tækjakost sem samanstóð af tveimur illa fengnum baðviktum. Þannig fengum við nokkuð góða hugmynd um heildarþyngd hjólanna sem og dreifingu þyngdar milli fram- og afturenda. En þrátt fyrir að kílóatala geti gefið ágæta vísbendingu um aksturseiginleika hjóls (a.m.k á blaði) er langt því frá að öll sagan sé sögð því dreifing þyngdar og staðsetning þyngdarpunkts skiptir ekki minna máli þegar á hólminn er komið. Þannig getur létt hjól með háan þyngdarpunkt virkað þunglamalegt og svo öfugt. Hér eru niðurstöður mælingarinnar:

Husaberg 62kg framan 62kg aftan =124 kg m. fullum tank

Tm 63kg framan 66kg aftan =129 kg m. fullum tank

Yamaha 64kg framan 66kg aftan =130 kg m. fullum tank

Gas-Gas 66kg framan 65kg aftan =131 kg m. fullum tank

VOR 68kg framan 69kg aftan =137 kg m. fullum tank

Flott uppstilling i fossinum…smella til að stækka Tekið skal fram að landið var í einkaeigu og allt
fullkomlega löglegt, en þarna er verið að testa á gröfnum moldarslóða…smella til að stækka
Heimir að stilla vogirnar undir VOR
hjólið….smella tili að stækka

Hvað er best?

Að útnefna eitt hjól sem afgerandi sigurvegara er ekki hægt með góðu
móti. Hér er þetta orðið spurning um að hver og einn vegi kosti og
galla hvers hjóls í samræmi við óskir sínar. GasGas er líklega það
hjól sem hvað flestir yrðu ánægðir með, eða ylli hvað fæstum
vonbrigðum eftir því hvernig menn líta á þetta.

ÞK

Skildu eftir svar