Útlendingar í Íslandsmótinu

Til umhugsunar fyrir alla. Allmikil skoðanaskipti hafa verið að undanförnu um það hvort leyfa eigi útlendingum að taka þátt í Íslandsmótinu í Moto-Cross / Enduro. Þessi umræða er tilkomin vegna sænska ökumannsins Micke Frisk, sem vill taka þátt í mótaröðinni. Þetta er það mikilvægt mál fyrir sportið að ég sé mig tilknúinn að velta þessu uppLög VÍK/MSÍ sem við keppum eftir eru skýr.

Þar er hvergi talað um að útlendir ökumenn mega ekki taka þátt og öðlast stig í mótaröðinni.

Í lögunum er þó í raun ekki tekið á þessu máli beint. Kannski af því að engan óraði fyrir því að útlendingar hefðu áhuga á að keppa / kenna okkur hér á skerinu.

Ég tel að það sé mjög hættulegt að meina útlendingum frá þáttöku.

Að loka okkur af með því móti er að mínu viti mikil skammsýni. Þannig neitum við okkur um nauðsynlega fræðslu, framfarir, samkeppni og víðsýni til þess að við stöðnum ekki.

Sjáið bara fyrstu keppnina á Álfsnesi í fyrra þar sem útlendingar kepptu. Það var ómetanlegt að sjá þeirra akstursstíl og línur í brautinni. Margir lærðu mikið bara að fylgjast með þeim.

Ég held að við gerum okkur ekki grein fyrir því hve mikil vítamínssprauta það er að fá hingað heimsklassa ökumenn til að kenna / keppa í mótum okkar.

Mjög gott dæmi um þetta er keppnin á Kirkjubæjarklaustri, þar sem við höfum verið svo heppin að geta borið saman okkar bestu ökumenn við marga af þeim bestu í heimi og lært mikið af því.

Ein ástæða fyrir vinsældum Klausturskeppninnar er einmitt sú staðreynd að útlendingar eru með og blanda geði við okkur “smælingjana”.

Ég vil loks í þessu lok sambandi benda á boltaíþróttir hér á landi. Þar er að sjálfssögðu leyft að vera með útlendinga í liði.

Og hvað ef bestu ökumenn okkar vildu taka þátt erlendis og safna stigum? Sem betur fer er öllum leyft að taka þátt í keppnum erlendis, sama hvort viðkomandi er hvítur, svartur, gulur eða frá Íslandi.

Það væri sorglegt ef V.Í.K myndi banna útlendingum að keppa með okkur.

Heimir Barðason.

Skildu eftir svar