Motocrossið á Akureyri

Akureyri motocross

Fyrsta umferð Íslandsmótsins var haldin á nýju keppnissvæði KKA í Krúsum á Akureyri um helgina. Veðrið var gott, keppnin tókst frábærlega og allir skemmtu sér vel. Norðanmenn eiga heiður skilinn fyrir alla vinnuna sem þeir leggja af mörkum fyrir keppendur. Það er stórkostlegt að upplifa þennan mikla áhuga og samheldni sem þeir sýna ár eftir ár til þess að við hin getum skemmt okkur. Keppnissvæðið í Krúsum við rætur Hlíðarfjalls er alveg meiriháttar flott. Skemmtilegt landslag og skemmtileg braut. Það leikur ekki nokkur vafi á því að þetta á eftir að verða flottasta braut landsins þegar fram líða stundir. Fimmfalt húrra fyrir Norðanmönnum.

Hvað varðar keppnina sjálfa þá var þetta í fyrsta skipti sem það reyndi fyrir alvöru á nýja flokkaskiptingu. Það er óhætt að seigja að breytingin er til góðs og við höfum ekki heyrt neinar óánægjuraddir með nýja fyrirkomulagið.

80cc flokkur.

Það er mikið ánægjuefni fyrir motocrossnefnd að sjá fjölgunina í þessum flokki. Einnig er geta þeirra sem keppa alltaf að aukast og greinilegt að þessir ungu keppendur eru að stunda markvissar æfingar í íþróttinni. Það sést best á tímunum þeirra í brautinni þar sem þeir bestu í þessum flokki eru að nálgast tíma A – flokks. Það var Norðanmaðurinn Ómar Þorri Gunnlaugsson sem kom sá og sigraði. Svavar og Steinar gerðu harða hríð að honum en án árangurs. Íslandsmeistarinn frá því í fyrra Freyr Torfason var fjarri sínu besta en sýndi þó góða takta inn á milli. Það verður spennandi að fylgjast með þessum flokki í sumar þar sem baráttann milli sex efstu manna er hörð og lítið sem skilur á milli.

125cc flokkur.

Það skortir svolítið á áhugann á þessum flokk og voru ekki nema fjórir keppendur skráðir til leiks og var því tekin sú ákvörðun að keyra hann með C-flokk. Ef áhuginn eykst ekki er hugsanlegt að sú breyting sé varanleg fyrir þetta keppnistímabil. Á keppnisdag gerðist það þó að þrír keppendur færðu sig úr B-flokk yfir í þennan flokk. Aron Ómarsson var í sérflokki og vann öruggan sigur. Þó er líklegt að Arnór Hauksson eigi eftir að velgja honum undir uggum þegar líða tekur á sumarið.

C flokkur.

Það kom motocrossnefnd á óvart hversu mikil þáttaka er í C flokki. Mátti sjá marga efnilega ökumenn í hópnum og verður gaman að sjá hversu mikið þeir eiga eftir að bæta sig í sumar og skila sér upp í A og B flokk á næsta ári. Það var Garðbæingurinn Magnús Þór Samúelsson sem vann og er greinilegt að hann ætlar sér stóra hluti í sumar. Gummi Stefáns og Raggi komu fast á hæla honum og það á örugglega eftir að verða hörð barátta á milli þessara ökumanna í sumar og fleiri munu eflaust blanda sér í hana þar sem greinilega er mikill hugur í mönnum.

B flokkur.

Það er óhætt að seigja að það hafi verið mikil dramatík í þessum flokki. Baráttan um fyrsta sætið stóð klárlega á milli Gylfa og Kára en báðir voru brokkgengir. Það bilaði hjá Gylfa í fyrsta moto og varð hann að keppa á lánshjóli í öðru og þriðja. Kári krúsaði til sigurs í fyrsta og öðru moto en fór síðan all svakalega á hausinn í því þriðja og slasaði sig lítilega. Hann hélt þó áfram að aka á hörkunni með aðra hönd á stýri en var flaggaður út fyrir vikið. Einhver eftirmáli mun verða á þeirri ákvörðun en það er alveg ljóst að menn verða að setja öryggið á oddinn og það er ekki hægt fórna því fyrir keppnishörkuna. Gunnlaugur Karlsson stóð því uppi sem sigurvegari dagsins, Kári endaði í öðru sæti og Gylfi í því fjórða. Það er mikið af efnilegum ökumönnum í þessum flokk og baráttan mikil. En þegar maður ber þá saman við A flokk er greinilegt að kappið er oft á tíðum of mikið og þá vantar reynsluna.

A flokkur

Raggi, Frisk og Einar voru í sérflokki. Það var ofboðsleg barátta þar sem Einar náði öllum holeshotunum og svo þurftu hinir að komast framúr. Það var því mikil spenna og mikið fjör fyrir áhorfendur. Þessir þrír keppendur eru allir mjög jafnir og það má enginn þeirra gera mistök eigi þeir á annað borð að eiga möguleika á sigri. Það var einnig mikil barátt um næstu sæti þar á eftir og má almennt seigja að geta keppenda í A flokki er að aukast en ennþá vantar þó herslumuninn uppá að unga kynslóðin blandi sér í toppbaráttuna.

Það er ljóst að ef þetta er það sem koma skal þá verður hörkuspennandi að fylgjast með keppnunum í sumar. Tvísýn barátta í öllum flokkum og mikil spenna.

Motocrossnefnd

Skildu eftir svar