Mega útlendingar keppa til Íslandsmeistara

Meðfylgjandi eru þau rök sem urðu þess valdandi að ég skipti um skoðun í þessu máli. Þess ber að geta að þetta snýst ekki um það hvort útlendingar megi keppa eða ekki. Einungis um það hvort þeir öðlist stigtil Íslandsmeistaratitils. Verðlaunin verða þeirra, nái þeir að vinna til þeirra á annað borð.

Við höfum í fjölda ára barist fyrir því að verða viðurkenndir sem íþróttafélög. Allir stefna inn í íþróttabandalög síns bæjarfélags og hafa sum félögin þegar náð þeim árangri. Í gangi er undirbúningsnefnd sem vinnur að því að koma skikkan á hin ýmsu akstursíþróttasambönd, sameina þau og koma þeim síðan inn í ÍSÍ (Íþróttasamband Íslands).

Það er ekki bókstafur í lögum MSÍ varðandi þáttöku útlendinga. Á það skal hinsvegar bent að ÍSÍ og á ég þá við öll íþróttafélög á landinu í öllum greinum banna útlendingum þáttöku í íslandsmeistaramótum einstaklinga. Þeir mega jafnt sem áður keppa sem gestir og vinna til verðlauna en öðlast ekki íslandsmeistaratitil, íslandsmet eða þáttökurétt til að taka þátt í keppnum fyrir hönd Íslands á erlendri grundu fyrr en þeir hafa búið hér á Íslandi í 3 ár.

Undantekningar eru gerða í flokkaíþróttum en þó með skilyrðum. Fjöldi þeirra er takmarkaður og enginn erlendur ríkisborgari fær að keppa fyrir hönd landsliðsins.

Ég lít á enduro og motokross sem íþrótt og finnst hjákátlegt ef við ætlum okkur að búa til „öðruvísi“ reglur en allar aðrar íþróttir á öllu landinu fara eftir. Sérstaklega með tilliti til þess að við mundum þurfa að breyta þeim þegar við fáum inngöngu í ÍSÍ. Við vitum að við stefnum inn í ÍSÍ. Högum því reglum okkar í samræmi við það.

Sum lönd leyfa þetta, önnur ekki. Nefni sem dæmi að á Ítalíu geta einungis Ítalskir ríkisborgarar orðið meistarar í enduro. Þeir eru samt ekki að vinna allar keppnirnar þar í landi. Við verðum að sjá heildarmyndina og gera okkur grein fyrir því í hvaða umhverfi við lifum en ekki flökta stefnulaust eftir því hvað hentar hverju sinni.

Hjólakveðjur

Guðjón

Skildu eftir svar