Vefmyndavél

Um Sýslumenn og vélhjólasport

„Það hafa komið fram þær hugmyndir í fjölmiðlum upp á síðkastið að fækka beri Sýslumannsembættum á landinu í fjögur. Ég tel að við hjólamenn getum ekki annað en tekið undir þær hugmyndir. Við höfum svo sannarlega orðið þess varir í sumar að reglugerð sú sem okkur er skömmtuð af Dómsmálaráðuneytinu sem rammi að íþrótt okkar, fær jafn misjafna túlkun og embættin eru mörg. Ég vil nefna sem dæmi samskipti okkar við sýslumenn á þessu ári:“

Þannig hefst grein Arons Reynissonar, formanns Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar.

Um sýslumenn og vélhjólasport.  13.08.03 @08:34

Það hafa komið fram þær hugmyndir í fjölmiðlum upp á síðkastið að fækka beri Sýslumannsembættum á landinu í fjögur. Ég tel að við hjólamenn getum ekki annað en tekið undir þær hugmyndir. Við höfum svo sannarlega orðið þess varir í sumar að reglugerð sú sem okkur er skömmtuð af Dómsmálaráðuneytinu sem rammi að íþrótt okkar, fær jafn misjafna túlkun og embættin eru mörg. Ég vil nefna sem dæmi samskipti okkar við sýslumenn á þessu ári:

Umsókn til Lögreglustjórans í Reykjavík vegna Ísaksturs í mars síðastliðnum. Engar athugasemdir og allt samkvæmt því sem við eigum að venjast.

Umsókn til Sýslumannsins í Keflavík vegna akstursíþróttasvæðis á Broadstreet. Svör fulltrúa sýslumanns voru ekki í samræmi við þá afgreiðslu sem sambærilegar umsóknir fengu í öðrum umdæmum. Gerðar voru kröfur umfram það sem reglugerð um akstursíþróttir segir til um og það sem tíðkast hefur annarsstaðar. Leyfið fyrir þessu svæði hefur ekki enn ekki verið afgreitt af hálfu sýslumanns auk þess sem fulltrúi sýslumanns hefur séð sig knúinn til þess að upplýsa önnur embætti með símbréfi um það hvaða kröfur hann setji um slík svæði og keppnishald á þeim.

Umsókn til Lögreglustjórans í Reykjavík vegna Endurokeppni í maí. Engar athugasemdir og allt samkvæmt því sem við eigum að venjast.

Umsókn til sýslumannsins í Ólafsvík vegna Motocrosskeppni í júní. Þrátt fyrir að haldnar hafi verið nokkuð margar keppnir í Ólafsvík án teljandi vandræða þá sá sýslumaður sig knúinn til þess að koma fram með nýjar kröfur. Það var fljótlega ljóst að uppsprettan af þessum kröfum voru bréfaskriftir sýslumannsfulltrúans í Keflavík. Eftir nokkuð þóf tókst að ná samkomulagi sem allir gátu sætt sig við.

Umsókn til sýslumannsins á Rangárvöllum vegna endurokeppni í júní. Engar athugasemdir og allt samkvæmt því sem við eigum að venjast.

Umsókn til Lögreglustjórans í Reykjavík vegna akstursíþróttasvæðis í Álfsnesi. Afgreitt án vandræða og í samræmi við það sem áður hefur tíðkast.

Umsókn til sýslumannsins í Ólafsfirði vegna motocrosskeppni í júlí. Ég held að flestir kunni þá sögu.

Umsókn til sýslumannsins á Akureyri vegna motocrosskeppni í júlí. Engar athugasemdir og allt samkvæmt því sem við eigum að venjast.

Umsókn til sýslumannsins á Selfossi vegna motocrosskeppni í ágúst. Þrátt fyrir að haldnar hafi verið tvær keppnir þar á síðast ári þá hefur Sýslumaður komið fram með nýja túlkun á reglugerðinni sem við höfum ekki séð áður og ég ætla ekki að rekja frekar hér.

Fyrir utan þetta sem ég tel upp hefur einnig verið keppt á Klaustri, Akureyri og á Neskaupstað í óhefðbundnum keppnisgreinum. Ég veit ekki til þess að það hafi verið vandræði þar með leyfisveitingar.

Af þessu má ljóst vera að þau svör sem við fáum við umsóknum okkar eru eins mörg og sýslumennirnir eru margir. Það er mjög leitt og umhugsunarvert að eftir öll þessi ár í keppnishaldi skulum við lenda í því að vera í “limbói” með keppnishald fram á síðasta dag og að það falli jafnvel niður vegna “duttlunga einstaka sýslumanna” við leyfisveitingar. Hvort sem því er um að kenna að reglugerð um akstursíþróttir er illa samin eða kæruleysi hjá einu embætti umfram annað skal ósagt látið. Hinsvegar má öllum vera ljóst að við þetta ástand getum við ekki búið lengur. Við erum fullorðnir menn og teljum okkur vera fyrir löngu búnir að sanna það fyrir yfirvöldum að við erum traustsins verðir. Við sjáum ekki ástæður þess að það þurfi að herða á okkur tökin og krefjast meiri fjármuna af okkar hálfu til þess að keppni geti farið fram eða að við fáum leyfi til að starfrækja akstursíþróttasvæði. Hjá okkur hefur keppnishald gengið blessunarlega stórslysalaust og þannig ætlum við okkur að halda þessu áfram.

Ég vil að lokum nota tækifærið og fagna því að ÍSÍ hefur tekið þá ákvörðun að taka akstursíþróttir undir verndarvæng sinn með því að stofna akstursíþróttanefnd. Með þeim gjörningi mun verða lagður grunnur að stofnun sérsambands innan ÍSÍ um akstursíþróttir líkt og aðrar íþróttagreinar. Það mun þá væntanlega verða til þess að við getum í framtíðinni hætt að setja okkur í flokk með ýmsum minnihlutahópum í þessu þjóðfélagi sem sjá sig t.d knúna til þess að þramma niður Laugarveginn til þess að vekja athygli á málstaðnum eða lenda í því að íþrótt þeirra er bönnuð með lögum í 50 ár. Það væri virkilega leitt ef við þyrftum að fara að æfa og keppa í “laumi”.

Aron Reynisson
Formaður Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar

Leave a Reply