Álfsnesbrautin klár!!!

Stór og breiður hópur vaskra drengja mætti á vinnukvöldið í Álfsnesi, lagði hönd á plóg og sannaði að margar hendur vinna létt verk. Motocross nefndin sá um skipulag framkvæmda. Kvöldið endaði síðan með myndarlegu kvöldkaffi í boði VÍK og sérútbúinn hjómflutningstækjabíll sá um að slá rétta bítið – langt fram á nótt.

Beygjur hafa verið stílfærðar, battar myndaðir, stökkpöllum fjölgað, uppstökk steypt og hert og dekk mokuð niður meðfram allri brautinni. Í kvöld stendur síðan til að mála dekkin, ef veður leyfir.

Brautin verður lokuð í dag. „GENERAL PRUFA“ brautarinnar fer fram á morgun, föstudag – en þá er brautin EINGÖNGU opin þeim sem unnu í henni í vikunni. Motocross nefndin hefur séð um að skrá niður nöfn allra sem tóku þátt í vinnunni og þeim einum verður leyft að keyra á morgun, öðrum verður vísað frá og eru menn vinsamlegast beðnir um að virða í hástert umbun þeirra sem lögðu hönd á plóg.

HELGARGLEÐI verður í Álfsnesi um næstkomandi helgi því yfir helgina, laugardag og sunnudag, verður brautin opin öllum landsmönnum, þar sem allir geta hjólað, kynnt sér aðstöðuna og brautina.

MÁNAÐARPASSI: Á mánudaginn hefst sala á mánaðarpassa sem gilda mun í brautina. Passinn kostar kr. 2.500 og gildir það sem af er Ágúst og út September. Sölustaðir passans verða væntanlega hjólabúðir og umboð. Tekjum af sölu passans verður varið í viðhald brautarinnar en verið er að gera þjónustusamning við jarðýtu-verktaka sem mun væntanlega mæta í brautina 1 sinni í viku, slétta, laga og bæta eftir þörfum. PrentLausnir hafa boðist til að hanna passann og prenta án kostnaðar fyrir VíK (takk kærlega fyrir það Mr. Thor) en þetta verður límmiði sem límdur verður efst á framdemparann, þannig að miðinn snúi að ökumanni. Frekari upplýsingar um passann og sölustaði verða settar á netið um helgina.

Í lokin þakkar VÍK öllum sem unnið hafa að brautinni kærlega fyrir hjálpina en margir hafa gefið af sér mikinn tíma og aðrir lagt til vélar, efni og verkfæri í mjög gott málefni.  F.h. stjórnar VÍK, Bjarni Bærings

Skildu eftir svar