Cannondale frumsýning á laugardagskvöld

Cannondale

Bílabúð Benna kynnir í fyrsta sinn á Íslandi amerísku torfæruhjólin frá Cannondale, í húsakynnum sínum að Vagnhöfða 23. Lokuð frumsýningarveisla verður haldin laugardagskvöldið 14. desember. Öllum meðlimum VÍK, AÍH, VÍV, MÁ, VÍR, KKA, VÍS, MSÍ og Sniglum er boðið í veisluna. 2003 árgerðin af Cannondale verður afhjúpuð ásamt óvæntum uppákomum og níðþungum veitingum. Sá/sú sem sviptir hulunni af fyrstu Cannondale hjólunum er án nokkurs efa ein áhrifamesta bifhjólamanneskja okkar tíma. John Harriman sérfræðingur frá Cannondale verður á staðnum og svarar tæknilegum spurningum um hjólin. Von er á fjölda gesta og mikilli gleði. Veislan hefst kl. 18.00 og fyrstu 100 gestirnir eiga von á óvæntri jólagjöf frá Bílabúð Benna…!!! F.h. Team Cannondale, Bjarni Bærings.

Cannondale torfæruhjól í fyrsta skipti á Íslandi

Bílabúð Benna hefur fengið umboð fyrir bandarísku torfæruhjólin frá Cannondale, en gengið var frá samningum þess efnis um síðustu mánaðamót. Cannondale verksmiðjurnar hafa hingað til verið þekktar fyrir hágæða keppnisreiðhjól, en hafa síðastliðin ár einbeitt sér af miklum þunga að þróun mótorhjóla til keppni í torfæruakstri.

Fyrsta sending af torfæruhjólunum er komin og verða þau frumsýnd mánudaginn 16. desember.  Að sögn Benedikts Eyjólfssonar, eiganda Bílabúðar Benna, er um tímamótahjól að ræða.  Helsta nýjungin er rafeindastýrð innsprautun eldsneytis og rafeindastýrt kveikjukerfi.  Þannig geta eigendur tengt mótorhjól sín við tölvu og stillt eiginleika vélar hjólanna með tilliti til þeirra aðstæðna sem ætlunin er að keyra við, en slíkt hefur hingað til ekki þekkst í torfæruhjólum.  Ennfremur koma þau með keppnisfjöðrun frá Öhlins sem er einn allra fremsti fjöðrunarframleiðandi heims.  Grind hjólsins er úr áli, vökvakúpling er staðalbúnaður, olíuverk gírkassa er aðskilið frá vél og meðal framúrstefnubreytinga er að snúa strokklokinu öfugt við það sem hingað til þekkist en með því móti er hægt að stytta pústgreinina og hagræða uppsetningu hjólsins til muna.

Eitt keppnislið í Íslandsmótinu í torfæruakstri hefur nú þegar ákveðið að keppa á Cannondale torfæruhjólum og mun Bílabúð Benna verða þeirra helsti styrktaraðili.  Helstu tæknisérfræðingar og hönnuðir hjá Cannondale verksmiðjunum í Bandaríkjunum hafa lýst yfir miklum áhuga á að fylgjast með keppnisliðinu reyna torfæruhjólin á Íslandi þar sem aðstæður hér þykja með erfiðasta móti, sérstaklega hvað varðar miklar hita- og rakabreytingar.

Hér eru hjólin komin

Samhliða torfæruhjólunum mun Bílabúð Benna selja þekkt vörumerki tengd torfæruhjólum.  Má þar meðal annars nefna O’neal fatnað, Oakley gleraugu, Alpinestars hlífðarfatnað og Michelin torfæruhjóladekk.

Frekari upplýsingar veitir:

Björn Ingi Jóhannsson, Bílabúð Benna s. 590-2000, netfang bjorn@benni.is

Nánari upplýsingar á internetinu: http://www.cannondale.com/motorsports/moto/

Skildu eftir svar