Hvað er trial?

Trial er ný vélhjólaíþrótt hér á landi. Íþróttin byggir á því að ekið er eftir fyrirfram ákveðinni leið yfir hindranir án þess að stoppa og stíga niður fæti. Þetta er því einskonar þrautakóngur á vélhjólum. Þegar ekið er yfir hindranir getur hraðinn verið allt frá mjög litlum hraða upp í ca. 60 km/klst. En það er ekki hraðinn sem skiptir mestu máli heldur nákvæmnin. Í hvert skipti sem ökumaður stöðvar eða stígur niður fæti þá fær hann refsistig frá dómara. Það skal tekið fram að það er einungis einn keppandi í hverri þraut í einu. Til þess að útskýra þetta betur þá skulum við líkja þessu við golf. Í golfi þá safnar þú refsistigum í hvert skipti sem þú slærð boltann. Þegar þú byrjar á nýrri holu er stigagjöfin núll. Eftir því sem þú notar fleiri högg því fleiri stig færðu. Í lok hverrar holu vinnur sá keppandi sem fengið hefur fæst stig. Í trial þá er brautin byggð upp á þrautum og keppandinn byrjar hverja þraut með núll stig. Í hvert skipti sem ökumaður stöðvar eða stígur niður fæti þá fær hann stig. Síðan gengur þetta svona koll af kolli. Í lok keppni vinnur sá sem er með fæst stig í heildina. Þegar keppandi hefur stöðvað eða stigið niður fæti í þraut þrisvar sinnum og hlotið þrjú stig þá getur hann haldið áfram án þess að fá fleiri stig þó hann stöðvi eða stigi niður fæti aftur. Ef keppanda mistekst hinsvegar algerlega að ljúka þraut við það að falla af hjólinu, keyra út úr brautinni eða drepa á hjólinu þá fær viðkomandi fimm refsistig. Fimm refsistig er m.ö.o mesta refsing sem keppandi getur fengið í þraut, jafnvel þó að viðkomandi ákveði að sleppa þrautinni vegna þess að hann treystir sér ekki til þess að aka hana. Það getur verið mjög mismunandi hvernig keppendur takast á við þrautirnar. Sumir taka þetta á tækninni á meðan aðrir nota kraftana. Ímyndaðu þér sjálfan þig og hjólið á flugi upp og yfir tveggja metra háan vegg. Eða að fikra þig niður snarbratta flughála hlíð til þess eins að snúa við þegar þú ert kominn niður og klóra þig aftur upp. Eða að fikra sig upp eftir árfargvegi gegn straumnum á flughálum steinum upp flúðir og litla fossa. Trial er sem sagt barátta ökumannsins við hindranir og þrautir. Sá sem gerir fæst mistök vinnur. Þar sem ekið er solo þá getur ökumaðurinn æft sig í einrúmi hvar sem er. Það getur þess vegna verið í bakgarðinum heima hjá viðkomandi á jafnsléttu. Þar er hægt að æfa jafnvægið, beygjur og samhæfingu bensíngjafar og kúplingar. Einnig er hægt að setja upp heimasmíðaðar hindranir til að æfa sig á. Það ætti því öllum að vera ljóst að Trial getur verið mjög spennandi og andleg pressa er mjög stór þáttur í keppni í þessari íþrótt. Ef þú bætir henni við líkamlegt erfiði þá ferðu kannski að skynja hvað það er sem gerir þessa íþrótt vinsæla.

Höfundur: Ronni (greinin birtist fyrst á enduro.is)

Skildu eftir svar