Vefmyndavél

Leiðbeiningar fyrir byrjendur

höfundur: Heimir Barðason

Þessi upptalning á akstursaðferðum er aðallega ætluð þeim sem stutt eru á veg komnir í MOTO-CROSS íþróttinni. Einnig er hægt að nota flest allar þessar aðferðir í öðrum tegundum vélhjólasports,t.d. ENDURO akstri. Þessi upptalning er mjög gróf og tek ég einungis allra helstu atriði fyrir. Ég hef hvorki tíma né aðstöðu til að taka öll atriði fyrir, en ef þú nærð tökum á þessum atriðum hér að neðan, þá ert þú orðinn vel slarkfær í MOTO-CROSS akstri og vélhjólaakstri almennt.
Vonandi verður þessi ritlingur sem þú hefur fyrir framan þig, stökkpallur til öruggari aksturs, hraðari aksturs og umfram allt til þess að þú njótir sportsins til fulls.

STÖRT.

1) Hreinsaður úr takkamunstrinu í afturdekkinu. (Þetta gerir þú til þess að ná eins góðu gripi og hægt er).

2) Reyndu að taka af stað við hliðina á hægari manni. (Þá eru meiri líkur á að þú hafir hann og þar með hefur þú meira pláss í kringum þig. Um leið eru minni líkur á að þú lendir í samstuði).

3) Hallaðu þér eins mikið fram og þú mögulega getur. (Þetta er gert til að hindra það að hjólið nái að prjóna).

4) Ýttu fast niður á stýrið. (Líka til að hindra prón).

5) Taktu af stað í eins háum gír og hjólið nær að toga.

6) Vertu með stöðuga bensíngjöf á startlínunni, alls ekki gefa í og slá af rétt áður en að flaggið fellur. (Annars er pottþétt að hjólið er ekki á snúning, það kokar og þú situr eftir með svitadropa á enninu).

7) Settu lappirnar eins fljótt á fótstatífin og þú getur. (Þú hefur meiri stjórn á hjólinu með lappirnar á fótstatífunum).

8) Settu strax í hærri gír eftir startið.(Þetta á við öll stór hjól, þ.e. 500cc., en á ekki eins við minni hjól). Það sem mestu máli skiptir, er að skipta um gír rétt áður en að hjólið fellur af kraftkúrfunni. (Þar sem það er kraftmest).

9) Ef eitthvað fer úrskeiðis, (hjólið byrjar að renna til eða eitthvað álíka) reyndu þá allt annað en að slá af. (Þú hefur meiri stjórn á hjólinu á gjöf).

BEYGJUR.

1) Hugsaðu alltaf um beygjur sem “fyrsta beygja eftir start”. (Með þessum hugsunarhætti ert þú ákveðnari í að tæta í gegn um hana á eins stuttum tíma og hægt er).

2) Þegar þú kemur af beinum kafla að beygju, þá áttu að vera með bensíngjöfina í hvínandi botni. Þegar þú ert kominn svo nálægt beygjunni að þú heldur að þú náir henni ekki, sláðu þá eldsnöggt af, (ekki hægt og rólega, heldur eldsnöggt) og trampaðu á bremsunum. (Þú átt að nota þær það sterkt, að það liggi við að þú læsir báðum dekkjum). Algengustu mistök byrjenda eru einmitt það að slá rólega af og taka ekki nema rétt aðeins í bremsurnar og láta hjólið bókstaflega renna að beygjunni. Ef þú gerir þetta, þá tapar þú geysilegum tíma og andstæðingarnir mala þig. Einfaldlega vegna þess að þeir halda bensíngjöfinni lengur í botni og fara seinna á bremsurnar.

3) Nálgastu beygjuna standandi á hjólinu, alls ekki sitja. (Þar með hristist þú ekki með hjólinu og getur einbeitt þér að því að bremsa). Þetta er mjög mikilvæg regla, því að brautin er alltaf holótt rétt fyrir beyjur. Ef þú situr á hjólinu yfir þessar holur, þá þreytist þú 100% meira en ef þú stendur. Fyrir alla muni STATTU.

4) Bremsaðu alltaf það seint og harkalega að þú haldir að þú náir ekki beygjunni. Ef þú getur þetta fyrir hverja beygju, þá ertu á nokkuð grænni grein.

5) Alls ekki vera of lengi á bremsunum og reyndu að gefa hjólinu í botn strax og þú byrjar að beygja. (Þú átt að vera kominn í botngjöf í miðri beygjunni). Ef þú getur og gerir þetta, þá kemst enginn fram úr þér í beygjum.

6) Hallaðu þér eins mikið fram og þú getur á meðan þú beygir, því þá er meiri þyngd á framdekkinu og þar með nær það betra gripi. Settu einnig löppina fram í þá átt sem þú ætlar að beygja. Þá græðist tvennt: Meiri þyngd er á framdekkinu og þar með betra grip og þú hefur töluvert meira jafnvægi.

7) Hallaðu líkamanum út fyrir hjólið og þrýstu með löppinni á ytra fótstatífið.
(Með þessu þrýstir þú dekkjunum í jörðina og þau grípa betur).

8) Þegar þú kemur út úr beygjum, hallaðu þér þá vel fram annars missir þú hjólið í prjón. (Á þessu augnabliki átt þú nefnilega að vera búinn að setja tíkina í botn.

9) Ef hjólið byrjar að renna til að aftan, alls ekki slá af, heldur skaltu gefa í og ef það er ekki nóg, þyngdu þá hjólið að framan með því að halla þér fram.

10) Reyndu að nálgast beygjur að utanverðu og koma úr þeim innarlega. (Þetta er nú ekki algild regla, heldur fer það aðeins eftir aðstæðum. Ef ökumaður kemst innan við þig eru allar líkur að hann nái að taka fram úr.

11) Í Moto-cross áttu að reyna að taka eins fáar beygjur og þú mögulega getur og mundu það að stutt beygja er yfirleitt betri en löng.

BEINIR KAFLAR.

1) Eiginlega er bara ein aðferð fyrir beina kafla: Vertu í botni. Þegar þú kemur út úr beygjum og á beina kafla, þá á tíkin að vera komin í botn, og þá meina ég botn. Síðan átt þú einfaldlega að halda gjöfinni í botni að næstu beygju. Hugsaðu ekki um holurnar gefðu bara meira í og sláðu aldrei af. (Á meðan þú ert í botni eru minnstu líkurnar á því að einhver tekur fram úr þér). Mundu svo að láta hjólið ekki renna að næstu beygju, heldur fara úr 100% botni og í 100% bremsu.

2) Reyndu að finna þannig línu á beinum kafla, að þú sleppir við sem flestar holurnar. Og í guðanna bænum, sittu aftarlega á hjólinu, því þannig er það stöðugast á mikilli ferð. Ef þú hefur orku og úthald, þá skalt þú standa á hjólinu og stattu þá aftarlega á því.

STÖKK.

1) Yfirleitt átt þú ekki að stökkva neitt nema þá helst til að losna við að keyra yfir slæman kafla. En ef þú verður að stökkva vertu þá með hjólið alveg upprétt og á stöðugri gjöf. Vertu standandi og dempaðu með hjólinu þegar þú ferð á pallinn. Um leið og hjólið er farið af pallinum, stattu þá aftur upp, (þú átt að dempa það mikið með hjólinu að þú sest í hnakkinn þegar það lendir) og dempaðu með hjólinu um leið og það lendir.

2) Um leið og hjólið sleppir pallinum áttu að slá af og rétt áður en það lendir áttu að vera kominn aftur í botn.

3) Ef hjólið virðist ætla að lenda á framdekkinu, gefðu þá duglega í, hallaðu þér eins mikið aftur og þú getur og togaðu hressilega í stýrið. Þetta ætti að forða þér frá slæmri byltu.

Eins og ég hef sagt áður í þessum ritling, þá er þetta mjög gróf upptalning á aðferðum í Moto-Cross og satt að segja þá held ég að þú hafir ekki gott af því að vita meira í einum slurk, þar sem að það myndi einungis rugla þig. Því held ég að þú ættir að einbeita þér að ná tökum á þessum atriðum sem ég er búinn að telja upp. Ef þig langar að vita meira þá er þér guðvelkomið að hafa samband. Síminn er XXX-XXXX. Svo, svona að endingu vona ég að þér gangi vel að melta þetta og góða skemmtun. Það er aðalatriðið.

Leave a Reply