Skytturnar 3, 1.bindi

Ferðasaga Þórs Þorsteinssonar, skrifuð 23 október 2001

Laugardags morgun var lagt af stað í viðburðaríka ferð. ferðalangar voru Sölvi Árnason (TM 14), Gunnar Sölavason (Yamaha 49) og Höfundur Þór Þorsteinsson (36 Suzuki).

Kl 8.00

Lagt af stað frá Háaleitisbraut, ekið 187 km í Vík í Mýrdal.

Á leiðinni austur uppgötvaði Sölvi nýtt enduro land. En það var þegar ekið var í gegnum Landeyjarnar hann leit í suður og sá svakaleg fjöll í landeyjunum. „Örugglega geðveikt að hjóla í þessum fjöllum“.  Sölvi var hissa þegar honum var tjáð að þetta væru Vestmannaeyjar. Kvöldið áður ætlaði Gunni að taka loftsíu fyrir mig með í hjólið mitt í ljós kom að hún gleymdist. Því voru góð ráð dýr. Keyptum þvottasvamp í Vík (110kr.) skárum hann í tvennt, settum sokk yfir og notuðum sem lofthreinsara.

Vík.

Hlýtt og logn. Troðið sér í hjólagallana, keypt bensín og samlokur. Keyrðum norður fyrir Heiðarvatn. Inn á Höfðabrekkuheiði þar eru endalausir ævintýradalir með jökul kvíslum sem bruna úr Mýrdalsjökli. Landið allt stórbrotið og hrikalegt. Ekkert fjall undir ca 700 m. vorum að þræða mjótt ævintýra gil þegar hættir að sjást í Gunna Bikarmaeistara fyrir frostlögsgufu. Í ljós kom að hosa lá utan í pústurrörinu. Á hosuna hafði brunnið gat. Nú voru góð ráð dýr. Ekki séns að ýta eða draga. Hosan tekin úr þvegin með bensíni, límd bót yfir gatið og teipað yfir vandlega. Hosan sett á og vatnskassin fylltur af vatni á ný.

Komum að gangnamanna skála stoppuðum og fengum okkur snarl. Héldum þaðan í átt að Múlakvísl sem getur vaxið hrikalega. Það kom í ljós að hún var gjörsamlega ófær. Keyrðum upp með kvíslinni(fljótinu) í átt að Kötlujökli. En fundum enga leið yfir. Urðum því að halda í suður niður að brú. Það kom í ljós að aðeins vantaði 50cm á að áin flæddi yfir brúargólfið.

Stefndum í átt að Hjörleifshöfðu ókum í árfarvegi niður undir sjó. Stoppuðum við hinn tignarlega Hjörleifshöfða og átum. Nú fóru hlutirnar að gerast.

Kl: ca 17.00 ókum strandlengjuna í átt að Vík. Loks komum við að Múlakvíslinni, hún bar nafn með rentu þarna niður undir sjó, þar kvíslaðist hún í ca 100m. Við ákváðum að reyna við ánna. Urðum að aka þvers og kruss. Loks í miðri ánni kom djúp og straumhörð kvísl. Sölvi snýst í straumnum, hjólið kippist undan honum á hliðina í 7 m breiðum og straumhörðum álnum. Hann dettur undir hjólið og er að berjast við að komast á fætur. Gunni stekkur útí og hjálpar Sölva í land. Hjólið hafði tekið vatn inná sig svo að við  urðum að þurka það en TM small í gang. Við virtumst vera komnir yfir erfiðistu álana. En svo reyndist ekki vera því er aðeins voru 10 metrar eftir í bakkan komum við að hrikalegum ál. Drepið var á hjólunum. Eftir umræður og spekuleringar ákváðum við að gefast ekki upp fyrir náttúruaflinu. Gunni fer fyrst af stað, keyrir upp í álin og sker hann svo þvert. En hann stoppar alltí einu. Með hjólið í gangi. Ég taldi víst að hann vildi að ég færi fyrst. Því setti ég í gang og keyrði 1m ofar en hann og lét vaða ákveðið, en ekki hratt í álinn. Allt í einu var eins og 50 tonna trukkur hefði keyrt á hliðina á hjólinu, ég réð ekki við neitt. Ég stefndi til sjávar. Það dýpkaði, loks drapst á hjólinu. Ég missti það undan mér.Flýt á eftir hjólinu, en næ að halda í stýrið með annari hendinni. Það eina sem var uppúr voru hendur mínar höfuð og og annar endin á stýrinu. Við stefndum óðfluga til sjávar. Ekki var nem 300 m í sjóinn. Ég lendi skyndilega í djúpum hyl. Ég er búinn að berast 20m í jökulstraumnum, Sölva bregður mjög, hann fer út í straumin og ætlar að grípa í mig en allt kemur fyrir ekki hann flýtur eins bauja í straumnum. Ég hugsa nei er hann ekki líka á leiðinni í sjóinn. Mér þótti nóg að ég færi. Var ég að týna hjólinu mínu ég myndi aldrei finna það aftur. Ég er orðin þrekaður eftir ca. 5 mínúntna baráttu í straumvatninu. Loks kemst Sölvi á land. Ég berst útí bakkan, Sölvi gefst ekki upp heldur kemur hann útí og heldur í hjólið með mér. Við vorum stopp. Við tókum á öllu sem við áttum til að halda hjólinu, það vildi útí sjó. Við gátum ekki dregið það upp. Á meðan við Sölvi börðumst við jökulstraumin hafði Gunni snúið við til að hjálpa okkur. Hann kom hlaupandi. Það grófst undan löppunum, við vorum að missa hjólið Gunni togar í okkur og loks náum við að toga hjólið á þurt land.

Þvílíkt spennufall. Við vorum vissir að hjólið færi í ekki í gang meira í dag en allt kom fyrir ekki DRZ small í gang þetta er ótrúlegt, eftir að hafa verið á kafi í straumvatninu í 10 mín. Gunni skimar upp eftir ánni, þar finnur hann grinningar, sem ná í land en þvert uppí straumin. Það var ekkert annað en að reyna það og það virtist vera að hafast þegar ég og Gunni vorum loksins komnir yfir,  nei kertið hafði eyðilagst hjá Sölva út í miðjum grinningunum (sem voru samt uppí hné í miklum straum). Við hlupum útí og hjálpuðum Sölva í land. Sóttum bílin og náðum í Sölva. Það var skollið á myrkur þegar við lögðum af stað til RVK.

Fórum í Víkurskálan og átum.

Það borgar sig aldrei að vanvirða afl náttúrunnar, það kom greinilega í ljós í dag.

Þór Þorsteinsson

Skildu eftir svar