Grein frá Hirti Líklegum

Enduro er spænskt orð og þýðir úthald. Orðið vísar til þess er keppnin gengur út á, enda er keppnisleið valin með því hugarfari að hún sé erfið og að meðalhraði keppanda sé undir 60 km. Það má segja að Enduro mætti líkja við maraþonhlaup, torfærukeppni, rallí, motocross og formúlu 1, allt í sömu keppninni.. Keppt hefur verið til Íslandsmeistara í Enduro í 3 ár og er það 4. að hefjast.

Keppnisfyrirkomulag getur verið mjög breytilegt.  Enduro getur verið eins og bílarallí með mörgum sérleiðum og eru keppendur þá ræstir með vissu millibili sem er algengast í Evrópu.  Einnig er keyrt í hringi í vissann tíma eins og í Formúlu 1.  Þá þurfa keppendur að stoppa til að taka bensín í miðri keppni eins og í Formúlunni. Þetta hringjafyrirkomulag hentar vel fyrir Íslenskar aðstæður og er upprunnið í Ameríku 1986 og kallast þar US Grand National Cross Contry series og eru keppnirnar þar 14 sem telja til meistara.  Í þessum keppnim eru 1000-1500 keppendur í hverri keppni og eru þetta fjölmennustu keppnir í Ameríku hvað keppandafjölda varðar í akstursíþróttum. Í Enduro er sigurvegari sá sem fer flesta hringi á tímanum sem keppendur fá til að aka þá braut sem lögð er, eða sá sem líkur sérleiðum á besta tímanum.

Í Bretlandi var farið að keppa í hringjakeppnum 1999 og kallast þær þar Fast Eddy eftir manninum sem stjórnar þeim í Englandi. Hann heitir Paul Edmondson, fimmfaldur heimsmeistari í Enduro, en hann hefur undanfarin 3 ár keppt í Ameríku í US GNCC.  Í Englandi eru 500 keppendur sem keppa í Fast Eddy keppnunum og er skipt í tvær keppnir.  Fyrst í clubman flokki í 2 tíma og síðan í 3 tíma í expert flokki.

1968 var fyrst keppt til Heimsmeistara í Enduro og var keppt í 3 vélarstærðarflokkum á mótorhjólum. Nú er keppt í 5 flokkum til Heimsmeistara.

Frá 1968 – 1977 var Tékkinn Jaroslav Masita ósigrandi á Jawa 350cc hjóli sínu alls 10 ár í röð í stærsta flokkinum.

Nokkrar staðreyndir og sögur: (satt og logið)

Fyrsta keppnin sem haldin var til Íslandsmeistara í Enduro var við Litlu Kaffistofuna og voru keppendur þá 30.  Flestir keppendur í einni endurokeppni á Íslandi voru í Ólafsvík í fyrra en þar voru 70 keppendur.

Endurokeppnin í Ólafsvík í fyrra var tveggja sérleiða keppni. Á meðal keppanda var bóndi úr Eyjafirði og þótti hann keyra vel og var í 6 sæti eftir fyrri sérleið, hljóp þá mikið kapp í bónda og ók hann full geist af stað í seinni leiðina með þeim afleiðingum að það sprakk hjá honum afturdekkið strax í upphafi leiðarinnar.  Bóndinn ákvað að aka á sprungnu það sem eftir var af leiðinni eða um 30 km.  Fljótlega affelgaði dekkið sig frá gjörðinni og var bóndinn stopp.  Tók hann þá á það ráð, að ná vírnum sem á að halda dekkinu við felguna og vafði honum utan um dekkið marga hringi og var þetta eins og frumstæður keðjubúnaður að vetri.  En svona skilaði bóndi sér í mark með frekar slakan tíma.  Höfðu menn á orði að þessi redding væri einstök og að engu borgarbarni hefði dottið í hug þessi snilld. (Finnur Stórbóndi)

Einn keppandi sem tók þátt í einni af erfiðustu Endurokeppninni sem haldin hefur verið, steig á vigtina heima hjá sér að morgni áður en hann fór í keppnina.  Eftir keppni steig hann á sömu vigt og var þremur kílóum léttari (Einar Sig).

Þess er dæmi að einn keppandi var svo þreyttur að það þurfti að bera hann af hjólinu þegar keppni lauk og varð að klæða hann úr öllum keppnisgallanum því hann var gjörsamlega örmagna í lok keppni. (Steini Tótu).

Einn keppandi kom heim til sín í lok keppnisdags og í forstofunni heima hjá sér fékk hann svo mikinn krampa í fæturna við að klæða sig úr skónum að pabbi hans varð að bera hann inn í baðkar og klæða hann úr ofan í heitu baðinu. (Jóhann Ögri).

Eftir eina keppnina var hjól eins keppanda svo drullugt að hann ákvað að vigta hjólið með drullunni áður en að hann þvoði hjólið og eftir þvott var hjólið 20 kílóum léttara. (Steini Tótu)

Fámennasta keppnin var við Ketilás í Fljótum 1998 og hófu 22 keppendur keppni, 14 luku keppni og af þeim 8 sem féllu úr keppni voru 4 með brotin bein (bringubein, rifbein, viðbein og puttabrot).  1 keppandi mætti í þessa keppni hins vegar viðbeinsbrotin og endaði í 6 sæti. (Viggó V.)

Í Snæfellsenduro 1999 hófu 34 keppendur keppni, en aðeins 15 komust í mark og enginn þeirra áfallalaust því vatnselgurinn var svo mikill að allir keppendur drápu á hjólum sínum í a.m.k. einu sinni út af vatni.  Í þeirri keppni féll fyrsti keppandinn út eftir 200 metra.  Sá sem ræsti í þá keppni gerði það með haglabyssu og þar sem hann var ekki með byssuleyfi var fulltrúi sýslumanns honum við hlið til halds og trausts. (Ræst við Keil á Görðum)

Einkvern tíman fyrir mörgum árum var haldin Endurokeppni í nágreni Kaldárssels fyrir ofan Hafnafjörð (fyrir um 20 árum) og voru þar á meðal keppanda Jón S. Halldórsson, Guðbergur stjórnarmaður í MSÍ.  Upplýsingar um þessa keppni væru vel þegnar ef einhver veit eitthvað.

Keppni í Enduro.

15 og 16 júní 1996 hélt Kappakstursklúbbur Akureyrar þrennukeppni sem var Enduro, Motocross og Brekkuklifur. Langflestir keppendur í stakri keppni af þessum þrem voru í Enduro eða alls 33 keppendur.  Brautin sem lögð var 16 km, lögð af Finni Stórbónda og þrælum hans.

Steini Tótu vann keppnina á 16,56 mín.   Ók hann á Husqwarna WR400 og í öðru sæti var Heimir Barða á tímanum 17,00 hann var þá á Husqwarna TE610.  Í þriðja sæti var svo Gummi Sig á KTM 360 á tímanum 17,18.

Í þessa keppni mætti kvennmaður í eina skiptið til þessa og var þar á ferðinni María Dröfn Garðarsdóttir á Honda XR 500.  Hún fór vel á stað, en datt og drap á hjólinu.  Við það að koma hjólinu aftur í gang tapaðist mikil orka og leiðin varð alltaf erfiðari og erfiðari.  Ákvað hún að hvíla sig í laut einni er var á hennar leið.  Virðist hún hafa verið orðin ansi þreitt því hún sofnaði og svaf svo vært að hún vaknaði ekki þrátt fyrir að fleiri en einn höfðu ekið framhjá henni í leit að henni löngu eftir að keppni var lokið.

Í september 1996 héldu svo Sniglar í samvinnu við Olís og Litlu Kaffistofuna keppni sem hófst bak við Litlu Kaffistofuna og endaði í gryfjunum á móts við Jósepsdal.  Keppniskeiðin var 34 km og var ræst með 1 mín millibili. Keppendur voru alls 27.

Viggó Viggóson vann þessa keppni á 34,14 mín og var meðalhraði hans 60,11 hann var á Yamaha WR 500.  Annar var Karl Gunnlaugsson á KTM 550 á tímanum 37,41.  Þriðji var svo Guðmundur Sigurðsson á KTM 360 á tímanum 38,15.

Í þessari keppni sem svo oft síðan var Guðmundur Björnsson læknir keppninnar.  Hann var á meðal keppanda og bað um að fá að vera ræstur síðastur ef svo illa vildi til að hann þyrfti að huga að hræum eins og hann orðaði það þá.

Það var í þessari keppni sem Víðir Hermannsson (stjórnarmaður í Sniglunum) datt í prufuhringnum og brákaði á sér 2 hriggjaliði.  Jón H. Magnússon (JHM Sport) datt og viðbeinsbrotnaði.  Einnig var það í þessari keppni að stærsta og þyngsta hjólið sem mætt hefur í Endurokeppni.  Hjól þetta var Suzuki DR 650 og er aðeins 167 kg án olíu og bensíns.  Ökumannshetja þessi var Gunnar Örn Svavarsson og var hann langt frá því að vera síðastur.

1997 var ein æfingakeppni í Enduro haldin af Sniglunum ásamt Olís og Litlu Kaffistofunni í september.  Keppnin var eins og árið áður.  Var ræst með 1 mín millibili og var ekin svipuð leið og árið áður en nú var búið að lengja leiðina upp í 44 km.

Það var Viggó Viggóson sem vann þessa keppni á Honda XR 400 og var tími hans 47,05 mín og meðalhraði 56,56. Annar var Einar Sigurðsson einnig á Honda XR 400 og var tími hans 50,33 og 3. Reynir Jónsson á KTM 360 á tímanum 51,11.

Þessi keppni var fyrsta keppni Jóhannesar Sveinbjörnssonar og mætti hann á Suzuki Dakar 600, en hann sprengdi dekk í prufuhringnum.  Flýtti hann sér um of í að skipta um dekk fyrir keppni og gleymdi að herða afturdekkið fyrir keppnina svo hann varð að stoppa á 5 km fresti til að herða afturgjörðina með puttunum.  Á endanum var allt orðið svo skakkt að keðjan slitnaði, en með hjálp eftirfara tókst honum að koma keðjunni saman og koma sér í mark.  Fyrir tilviljun voru tímaverðir ekki farnir úr endamarki og fékk hann tíma sinn mældan.  Ástæða þess að tímaverðir voru ekki farnir var sú að bíll tímavarða var rafmagnslaus og voru þeir að bíða eftir startköplum.  Tími Jóa var 84,35 mín.

Það voru 35 keppendur sem hófu þessa keppni, en 27 luku keppni. Þeir sem duttu út ýmist krössuðu eða vélarnar í hjólunum voru að neituðu að fara lengra.  Þó var það einn sem gafst upp í prufuhringnum og fór heim með þeim orðum að þetta væri alltof erfitt og hefur ekki til hans sést síðan.

Árið 1998 var svo blásið til Íslandsmeistarakeppni í nafni Snigla og áttu keppnirnar að vera þrjár í anda GNCC keppnanna frá Ameríku, en með hlaupastarti eins og í Lumans kappakstrinum fræga.  Allar áttu keppnirnar að vera í hringi og átti aksturstími ekki að vera undir 60 mín.

Fyrsta keppni átti að vera 23 maí, en þá var kosningardagur og bað stjórn LÍA um að keppnin yrði færð fram um 2 daga og höfð á Uppstigningardag 21 maí.  Fyrir vikið var brautin ekki eins og hún átti að vera í upphafi, en hún var lögð morguninn fyrir keppni og var um 7 km löng.  Keyra átti í 6 hringi.

Þar sem að ekki var frí daginn eftir voru ekki nema 30 keppendur.

Það var svo Viggó Viggóson sem vann á Yamaha WR 400, annar var Einar Sigurðsson á Honda XR 400 og Reynir Jónsson KTM 360 í þriðja sæti.

Önnur keppnin var svo haldin við Ketilás í Fljótum í tengslum við landsmót Snigla föstudaginn 3 júlí. Aftur var það stjórn LÍA sem fór fram á að keppnin væri færð fram um 1 dag vegna torfærukeppni á Egilsstöðum daginn eftir. Vegna þessa var keppnin sú fámennasta eða 22 keppendur.

Að öðru leiti var þessi keppni sérstök vegna þess að sigurvegarinn vann keppnina á kæru. Ástæða þess var sú að starfsmaður keppninnar tilkynnti að fyrstu 2 menn hefðu sleppt hliði og gaf keppnisstjórn þeim því refsingu upp á 10 mín og sagði Einar Sigurðs sigurvegara.  Eftir að kæran var tekin fyrir var úrskurðað kærendum í hag og staða efstu manna var sem hér segir:

Fyrstur Þorvarður Björgúlfsson Husqwarna TE610.  Annar Reynir Jónsson KTM 360 og þriðji Einar Sigurðsson Honda XR400.

Þriðja og síðasta keppnin var haldin við Húsmúlarétt 26 september og hafði enn einu sinni komið beiðni um að fresta keppninni um 1 dag frá stjórn LÍA vegna þess að lokakeppninni í rallí hafði verið frestað um viku og lenti á þessum degi.  Þessari beiðni var hafnað á þeirri forsendu að það væri komið nóg af tilfærslum í keppnunum á þessu fyrsta ári í Íslandsmeistarakeppninni í Enduro.

Brautin var 20 km og átti að aka 4 hringi.  Það voru 36 keppendur sem mættu í þessa keppni og að henni lokinni var það Viggó Viggóson sem sigraði, annar var Einar Sigurðsson og þriðji Þorvarður Björgúlfsson.

Úrlist 1998 voru því;
1 Viggó Viggóson var Íslandsmeistari með 50 stig
2  Einar Sigurðsson, 49 stig
3  Þorvarður Björgúlfsson, 48 stig.

Árið 1999 var annað ár endurokeppna til íslandsmeistara.  Nú var það VÍK sem hélt endurokeppnirnar.  Þetta var fyrsta ár KLÍA og átti að vera þægilegra fyrir keppnishaldara að halda keppnir, en með tilkomu KLÍA fóru öll keppnisgjöld til KLÍA og klúbburinn fékk ekkert.

Fyrsta keppnin var 8. Mai í Þorlákshöfn á friðuðu landi sem er í umsjón Landgræðslunnar og var fengið leyfi til að keppa þessa einu keppni í tilraunarskyni. Það byrjaði ekki vel samstarfið við KLÍA.  Okkur var skipað að fresta keppninni vegna þess að Kvartmíluklúbburinn var með keppni á sama tíma, en keppnisstjórn gaf sig ekki enda með 36 keppendur skráða í enduro en ekki nema 14 í kvartmílu og var það ekki spurning hver skyldi víkja í augum keppnisstjórnar.

Eins og áður sagði voru 36 keppendur skráðir til keppni og var þetta í fyrsta sinn sem menn mættu með lið til keppni.  Þetta voru Vélhjól og Sleðar með Kawasaki lið og KTM umboðið með Kalla í fararbroddi með sitt KTM lið.

Það var svo sveitarstýran í Þorlákshöfn sem ræsti kepppendur með stæl (það var ógleymanleg stund að sjá svipinn á börnunum hennar því þau sáu yfir 30 mótorhjól koma æðandi í átt að mömmu þeirra og eflaust hafa þau hugsað “öll þessi mótorhjól keyra yfir mömmu og drepa hana”).

Til að gera langa sögu stutta vann Einar Sigurðsson á KTM þessa keppni, annar var Viggó Viggóson á Yamaha og 3 var Reynir Jónsson á Kawasaki.

Önnur keppnin var Snæfellsenduro og var þriggja sérleiða keppni skipulögð af Denna Bróður.  Keppnin hófst við ferðaþjónustubúgarðinn að Görðum og var þaðan ekið að Hótel Búðum. Síðan var ferjuleið að gamla veginum upp á Fróðárheiði þar sem önnur sérleið hófst.  Því næst var ferjuleið í gegnum Ólafsvík út fyrir Enni.

3 sérleið var eftir grýttum slóða upp að jökli og niður að Gufuskálamóðu sem var svo full af vatni að enginn komst eftir henni nema fuglinn fljúgandi eins og segir í ævintýrinu.  Það voru 15 blautir kappar sem komust í mark og var það Einar Sig sem vann, annar var Guðmundur Sigurðsson og 3 var Karl Gunnlaugsson, allir á KTM.

Að keppni lokinni var svo verðlaunaafhending í boði Danól að Görðum þá varð til staka frá Kela staðarhaldara á Görðum sem er svona:

Raftastóð með rifna sál,
“race” á grýttum hólum.
Þeir detta á hausinn, dælda stál
og drekkja stórum hjólum.

Þriðja og síðasta keppnin var svo við Lyklafell við Reykjavík.   Var þá ekinn fremur erfið leið sem var um 12 km í tvennu lagi.  Fyrst urðu menn að ljúka fyrri 7 hringjunum á innan við þrem tímum til að komast í seinni 7 hringina.  Tveir og tveir voru ræstir í einu með 30 sek millibili. Þetta var mikil drullukeppni og var sennilegast líkust alvöru-endurokeppnum að öllum öðrum endurokeppnum ólöstuðum.

Einar Sigurðsson fullkomnaði þrennuna með því að vinna og varð Íslandsmeistari með fullt hús stiga 20 stig (þá voru gefin 20 stig fyrir fyrsta sæti).  Annar varð Viggó Viggóson og þriðji varð Guðmundur Sigurðsson.

Það var eitt stórkostlegt við þetta sumar í enduroinu að enginn slasaðist í öllum 3 keppnunum, en vissulega fengu menn einkverjar skrámur eins og alltaf.

Árið 2000

Það ár var MSÍ stofnað og var það von stjórnar VÍK að fjárhagurinn mundi lagast við að ganga úr LÍA og KLÍA og halda utan um fjármálin sjálfir og reyna að safna peningum til að geta rekið klúbbinn með sóma, enda kom það á daginn að afkoman varð góð í árslok.

Fyrsta keppnin var haldin í Þorlákshöfn og var það nú nýlunda að keppendur mættu í liðum til keppni og var það mjög skemmtilegt fyrir áhorfendur að geta fylgst með liðsvinnunni þegar keppendur komu inn í “pytt” til að láta þjónusta sig og hjólið.  Keppnisforminu hafði verir breytt í hringja-keppni og var nú ekið í tvisvar sinnum 90 mín með eins klukkustunda hléi á milli.  Hvor keppni gaf 30 stig fyrir sigurvegara og var veitt verðlaun fyrir daginn samanlagt.

Það voru 60 keppendur sem hófu keppni og er skemmst frá því að segja að Reynir Jónsson á Kawasaki KX 250 vann þessa keppni með 51 stig.  Annar var Einar Sig á KTM með 43 stig og þriðji varð Helgi Valur Georgsson á KTM með 36 stig.

Önnur keppni var haldin af Rúnari og félögum í Ólafsvík og var keppnin tvær sérleiðir og ein ferjuleið.  Það voru 70 keppendur í þessari keppni sem var fyrsta keppnin í Enduro sem sýnd var á Skjá 1 í þættinum Nitro.

Það var Viggó Viggóson sem vann, annar var Guðmundur Sigurðsson og þriðji var svo Einar Sigurðsson allir voru þeir á KTM.

Þriðja og síðasta umferð fór svo fram við mynni Jósepsdals (á móti Litlu Kaffistofunni) í september. Keppnin var eins og sú fyrsta 2×90 mín, en í hléinu var keppt í flokki byrjanda og ekinn einn hringur í sömu braut og hinir.

Brautin var fremur þröng og erfið og var þetta fyrsta Endurokeppnin sem meðalhraði sigurvegara fór niður fyrir 35 km á kl.

Það er skemmst frá því að segja að Einar Sig KTM vann og varði þar með Íslandsmeistaratitil sinn.  Annar varð Helgi Valur Georgsson á KTM og þriðji varð svo Haukur Þorsteinsson á Yamaha.

Þá er lokastaða efstu þriggja til Íslandsmeistara árið 2000 eftirfarandi:
1. Einar Sigurðsson, KTM, 119 stig.
2. Helgi Valur Georgsson, KTM, 96 stig.
3. Viggó Viggósson, KTM, 90 stig.

Skildu eftir svar